7% tekjuvöxtur og 13,5% EBIT samkvæmt bráðabirgðauppgjöri 2019 - EBIT framlegð fjórða ársfjórðungs undir væntingum

Placeholder Image

Samkvæmt óendurskoðuðu bráðabirgðauppgjöri Marel fyrir árið 2019 hækka tekjur félagsins um 7% á milli ára og nema 1.284 milljónum evra (2018: 1.198m). Þar af voru tekjur fjórða ársfjórðungs 320 milljónir evra (4F18: 331m). EBIT framlegð fyrir árið 2019 var um 13,5% (2018: 14,6%), sem skýrist af lágri 10% EBIT framlegð á fjórða ársfjórðungi 2019 (4F18: 14,6%). Þessa tímabundnu lækkun á rekstrarniðurstöðu má einkum rekja til óhagstæðrar samsetningar milli iðnaða og vörutegunda, sem og hækkunar á kostnaði til að mæta breytingum á eftirspurn eftir heimshlutum.

Pantanir í ársfjórðungnum námu 303 milljónum evra (4F18: 296m). Frjálst sjóðstreymi í fjórðungnum var sterkt eða 53 milljónir evra (4F18: 41m), en auknar innborganir á pantanir í lok fjórðungsins gefa til kynna betri horfur á markaði og aukna eftirspurn frá viðskiptavinum félagsins.

Markmið félagsins um 12% árlegan meðalvöxt tekna yfir tímabilið 2017-2026 er óbreytt.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel:

„Við birtum þessa tilkynningu um meginniðurstöður ársins nú í ljósi þess að rekstrarniðurstöður sýna í kringum 10% EBIT framlegð í fjórða ársfjórðungi, sem er undir væntingum. Þetta þýðir að við lokum árinu með um 13,5% EBIT framlegð, en hún hefur verið um 14-15% síðustu ár. Á sama tíma náðum við að skila 7% tekjuvexti og EBIT var svipað á milli ára.

Í samstarfi við viðskiptavini okkar höfum við komist í gegnum erfitt tímabil þar sem markaðaðstæður lituðust af viðskiptahindrunum og umróti á heimsmörkuðum. Við horfum nú fram á bjartari tíma og merkjum aukna eftirspurn og vilja til fjárfestinga á markaði. Horfur fyrir pantanir eru góðar og með aðgerðum til að straumlínulaga rekstur félagsins má búast við auknum tekjum og bættri arðsemi jafnt og þétt eftir því sem líður á árið. Með framsæknu vöru- og þjónustuframboði, alþjóðlegu sölu- og þjónustuneti og sterkri fjárhagsstöðu, stefnir Marel áfram að 12% árlegum meðalvexti tekna yfir tímabilið 2017-2026 með hækkandi EBIT framlegð.“

* * *

Bráðbirgðaniðurstöðurnar eru óendurskoðaðar og gætu tekið breytingum. Marel mun birta afkomu fyrir fjórða ársfjórðung og árið í heild sinni á bæði NASDAQ Ísland og Euronext Amsterdam kauphöllunum samkvæmt fjárhagsdagatali sínu þann 5. febrúar 2020.

Þann 6. febrúar kl. 8.30 mun Marel halda afkomufund fyrir markaðsaðila í höfuðstöðvum félagsins, þar sem forstjórinn Árni Oddur Þórðarson og fjármálastjórinn Linda Jónsdóttir munu kynna afkomu ársins og helstu atriði úr rekstri.

Fundinum verður einnig vefvarpað beint á www.marel.com/webcast og upptaka verður aðgengileg á www.marel.com/IR eftir fundinn. Markaðsaðilum gefst einnig tækifæri til að hringja inn á fundina.

Fjárfestatengsl

Hægt er að hafa samband við Fjárfestatengsl Marel í gegnum netfangið IR@marel.com og í síma 563 8001.

Um Marel

Marel (NASDAQ: MAREL; AEX: MAREL) er í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu tækja, heildarlausna, hugbúnaðar og þjónustu fyrir matvælavinnslu á kjúklingi, kjöti og fiski. Hjá félaginu starfa yfir 6.000 manns í yfir 30 löndum, þar af um 720 á Íslandi. Marel velti 1,2 milljarði evra árið 2018 en árlega fjárfestir Marel um 6% af veltu í nýsköpun og vöruþróun sem styður við aukna hagkvæmni, öryggi og sjálfbærni í matvælavinnslu. Félagið var skráð í Kauphöll Íslands árið 1992, en í júní 2019 fór fram tvíhliða skráning hlutabréfa félagsins í Euronext kauphöllinni í Amsterdam.

Athygli fjárfesta er vakin á eftirfarandi:

Sumar staðhæfingar í þessari fréttatilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna við birtingu hennar. Í eðli sínu fela slíkar staðhæfingar því í sér óvissu. Vakin er athygli fjárfesta á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í þessari tilkynningu. Tilkynningin verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað þetta varðar.

Gögn um markaðshlutdeild

Yfirlýsingar um markaðshlutdeild, þar með taldar þær sem varða samkeppnisstöðu Marel, byggjast á utanaðkomandi heimildum og gögnum, svo sem gögnum frá rannsóknastofnunum, iðnaðar- og sölunefndum og hópum, ásamt mati stjórnenda Marel. Séu upplýsingar ekki tiltækar fyrir Marel kunna slíkar yfirlýsingar að vera byggðar á áætlunum og mati utanaðkomandi aðila og/eða stjórnenda. Markaðsstaða er byggð á sölutölum nema annað sé tekið fram.

Sé misræmi á milli uppgjörstilkynninga félagsins á íslensku annars vegar og ensku hins vegar, skal enska útgáfan gilda þar sem tilkynningar eru þýddar af ensku yfir á íslensku.


Get in touch

Our dedicated team is here to help and answer any questions you may have. Please complete the form, and we’ll get back to you as soon as possible. We look forward to hearing from you.

Login to get full access

Enter password to continue

Wrong password