Árni Sigurðsson nýr forstjóri Marel

Arni Sig

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, hefur óskað eftir því að láta af störfum frá og með deginum í dag vegna persónulegra ástæðna. Stjórn félagins hefur fallist á starfslokin og tekur Árni Sigurðsson, sem gegnt hefur starfi aðstoðarforstjóra Marel, við starfi forstjóra tímabundið á meðan stjórn mun finna félaginu forstjóra til framtíðar.

Árni Sigurðsson hefur starfað hjá Marel frá árinu 2014, fyrst sem yfirmaður stefnumótunar og þróunar, síðar framkvæmdastjóri stefnumótunar og stefnumarkandi rekstrareininga, og hefur síðastliðið ár gegnt stöðu aðstoðarforstjóra félagsins og leitt tekjusvið þess. Áður en hann gekk til liðs við Marel starfaði Árni hjá AGC Partners og Landsbankanum. Árni er með MBA gráðu frá Harvard Business School og BSc gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands.

Arnar Þór Másson, stjórnarformaður Marel:

„Stjórn Marel vill þakka Árna Oddi Þórðarsyni innilega fyrir hans mikilvæga framlag til vaxtar og velgengni Marel síðustu 10 ár sem forstjóri og þar áður sem stjórnarformaður í 8 ár. Skýr framtíðarsýn hans og metnaður fyrir því að umbreyta matvælaiðnaði á heimsvísu hefur verið leiðarljós í stefnu Marel. Stjórnin er ánægð að geta leitað til Árna Sigurðssonar til að taka tímabundið við hlutverki forstjóra og tryggja þannig samfellu í rekstri gagnvart viðskiptavinum og áframhaldandi sókn í samræmi við vaxtarstefnu félagsins. Hann hefur fullt traust stjórnar til að leiða Marel áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið til frekari virðisaukningar.“

Árni Sigurðsson, forstjóri Marel:

„Það er mér heiður að fá að leiða okkar frábæra teymi í Marel til áframhaldandi samstarfs við viðskiptavini okkar á heimsvísu. Í störfum mínum fyrir Marel hef ég unnið þvert á tekjusvið og rekstrareiningar félagsins í hartnær áratug og hef mikla trú á þeim tækifærum, tækni og mannauði sem Marel býr að til að umbreyta matvælaiðnaði á heimsvísu. Við höfum tekið mikilvæg skref í átt að betri árangri og við erum á réttri leið. Ég hlakka mikið til að starfa nánar með okkar frábæra starfsfólki, viðskiptavinum og öðrum hagaðilum á komandi vikum og varða veginn til áframhaldandi vaxtar.“

Árni Oddur Þórðarson, fráfarandi forstjóri Marel:

„Mér er efst í huga þakklæti til allra þeirra metnaðarfullu starfsmanna, framsýnu viðskiptavina og fjölmörgu hluthafa sem ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að starfa með, fyrst sem stjórnarformaður og nú síðustu 10 ár sem forstjóri félagsins.  Saman höfum við tekist á við áskoranir, gripið tækifæri og styrkt samkeppnisstöðu Marel, skref fyrir skref. Mikilvægast er að félagið er vel í stakk búið til frekari sóknar.“ 



Get in touch

Our dedicated team is here to help and answer any questions you may have. Please complete the form, and we’ll get back to you as soon as possible. We look forward to hearing from you.

Login to get full access

Enter password to continue

Wrong password