Þema ársskýrslunnar – Nýsköpun, framþróun og sjálfbærni – endurspeglast í störfum okkar þvert á félagið. Árlega fjárfestir félagið um 6% af veltu í nýsköpun og vöruþróun sem styður við aukna hagkvæmni, öryggi og sjálfbærni í matvælavinnslu og stuðlar að hámarksafköstum viðskiptavina.
Í ársskýrslunni má finna yfirgripsmikla umfjöllun um Marel sem er í fararbroddi í heiminum í þróun og framleiðslu tækja, heildarlausna, hugbúnaðar og þjónustu fyrir matvælavinnslu á kjúklingi, kjöti og fiski. Með kaupum félagsins á Wenger um mitt ár 2022 nær vöruframboð félagsins nú einnig til hátæknilausna til vinnslu á gæludýrafóðri, matvælum úr plöntupróteinum og fóðri til fiskeldis.
Árið 2022 var ár umbreytinga hjá félaginu á tímum mikilla áskorana og óvissu í ytra rekstrarumhverfi. Á árinu voru sett ný met í mótteknum pöntunum og þjónustutekjum, við kynntum 33 nýjar hátæknilausnir og hittum viðskiptavini okkar á stærstu vörusýningum víðsvegar um heiminn. Til að styðja við framtíðarvöxt og virðisaukningu fyrir félagið réðumst við einnig í fjárfestingar á mikilvægum innviðum með það að markmiði að auka sjálfvirknivæðingu og stafræna þróun. Þessi frábæri árangur hefði ekki náðst nema fyrir elju, dugnað og áræðni starfsfólks Marel og þeirra góða samstarfs við viðskiptavini og birgja.
Hjá Marel starfa um 8.000 manns í yfir 30 löndum, þar af um 800 á Íslandi. Starfsfólk Marel er okkar mikilvægasta auðlind. Ástríða fyrir nýsköpun, áræðni og kraftur er lykillinn að áframhaldandi vexti og velgengni félagsins. Með öflugri nýsköpun síðustu 40 ár höfum við kynnt byltingarkenndar hátæknilausnir sem minnka sóun og auka við sjálfbærni í matvælavinnslu á heimsvísu. Þannig stuðlum við að framþróun og verðmætasköpun í allra þágu.
Ársskýrslan er aðgengileg á stafrænu formi, þar sem meðal annars er að finna margmiðlunarefni, gagnvirkar töflur og gröf, og einnig sem PDF skjal.
Kynntu þér ársskýrslu Marel 2022
Aðalfundur Marel í dag
Aðalfundur Marel hf. verður haldinn klukkan 16:00 í dag 22. mars 2023. Fundurinn fer fram á ensku í höfuðstöðvum Marel, Austurhrauni 9 en er einnig aðgengilegur hluthöfum í streymi. Nánari upplýsingar og fundargögn má nálgast á aðalfundarvef Marel.
Aðalfundarvefur Marel (á ensku)
Fyrirspurnir um skráningu eða fyrirkomulag fundarins má senda á agm@marel.com eða hringja í 563 8205 milli 9:00-16:00.