- Marel tilkynnir um breytingu á skipulagi félagsins þar sem viðskipta- og sölusviði (e. Commercial) er skipt í tvö ný svið; þjónustu (e. Service) og alþjóðamarkaði (e. Global Markets).
- Nýir framkvæmdastjórar taka sæti í framkvæmdastjórn, Ulrika Lindberg sem framkvæmdastjóri þjónustu og Einar Einarsson sem framkvæmdastjóri alþjóðamarkaða.
- Pétur Guðjónsson lætur af störfum framkvæmdastjóra viðskipta- og sölusviðs og tekur við nýju hlutverki hjá Marel utan framkvæmdastjórnar.
- Markmið skipulagsbreytinganna er að styðja við áframhaldandi vöxt og velgengni með því að bæta þjónustu við viðskiptavini og samræma verkferla fyrirtækisins á starfsstöðvum um allan heim.
- Nýja skipulagið gerir Marel kleift að vinna nánar með viðskiptavinum og að auka sveigjanleika til þess að styðja við metnaðarfulla vaxtarstefnu fyrirtækisins.
Frá og með deginum í dag, 21. júní 2018, hefur Ulrika Lindberg verið skipuð framkvæmdastjóri þjónustu Marel og Einar Einarsson framkvæmdastjóri alþjóðamarkaða. Þau taka bæði sæti í framkvæmdastjórn Marel og munu heyra undir Árna Odd Þórðarson, forstjóra Marel. Pétur Guðjónsson, fráfarandi framkvæmdastjóri viðskipta- og sölusviðs, mun taka við nýju hlutverki hjá Marel.
Ulrika Lindberg er 50 ára og hefur yfir 20 ára reynslu í alþjóðlegri þjónustu en hún hefur áður gegnt lykilhlutverkum í alþjóðlegum fyrirtækjum eins og Alfa Laval og Tetra Pak. Í fyrra starfi sínu sem yfirmaður alþjóðlegrar þjónustu hjá Alfa Laval byggði Ulrika með góðum árangri upp nýtt svið með það að markmiði að auka þjónustutekjur og bæta þjónustustaðla í alþjóðlegu þjónustuneti fyrirtækisins. Ulrika tekur formlega til starfa hjá Marel þann 15. september nk.
Einar Einarsson er 50 ára og hefur yfir 15 ára reynslu í forystu fyrir sölu- og þjónustustarfsemi Marel í Norður Ameríku. Einar tók við sem framkvæmdastjóri Marel Inc. í Bandaríkjunum árið 2003 og sinnti þar áður öðrum störfum hjá Marel, meðal annars sem söluhönnuður, sölustjóri, og vörustjóri. Einar tekur við sem framkvæmdastjóri alþjóðamarkaða frá og með deginum í dag. Samhliða því mun hann áfram sinna hlutverki framkvæmdastjóra Marel Inc. í Bandaríkjunum þar til eftirmaður hans í því starfi tekur við.
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel:
„Marel starfar í síbreytilegu umhverfi þar sem kröfur neytenda þróast hratt. Velgengni Marel á undanförnum árum byggir á samheldnu teymi, sterkum viðskiptasamböndum og umtalsverðum fjárfestingum í nýsköpun, innviðum og aðstöðu um allan heim. Til þess að halda leiðandi stöðu okkur á markaðnum og ná metnaðarfullum vaxtarmarkmiðum verðum við að halda áfram að þróast og bæta upplifun viðskiptavina enn frekar.
„Við erum að breyta innra skipulagi með aukna áherslu á alþjóðamarkaði og þjónustu. Einar Einarsson hefur í störfum sínum hjá Marel sýnt að hann er öflugur og hæfileikaríkur leiðtogi og hann axlar nú aukna ábyrgð sem framkvæmdastjóri alþjóðamarkaða eftir að hafa varið undanförnum 15 árum í að byggja og leiða upp starfsemi Marel í Bandaríkjunum.
Skipulag Marel – 2018