Breytingar á skipulagi og framkvæmdastjórn Marel

Placeholder Image

Ulrika Lindberg hefur verið skipuð framkvæmdastjóri þjónustu Marel og Einar Einarsson framkvæmdastjóri alþjóðamarkaða. Þau taka bæði sæti í framkvæmdastjórn Marel og munu heyra undir Árna Odd Þórðarson, forstjóra Marel.

  • Marel tilkynnir um breytingu á skipulagi félagsins þar sem viðskipta- og sölusviði (e. Commercial) er skipt í tvö ný svið; þjónustu (e. Service) og alþjóðamarkaði (e. Global Markets).
  • Nýir framkvæmdastjórar taka sæti í framkvæmdastjórn, Ulrika Lindberg sem framkvæmdastjóri þjónustu og Einar Einarsson sem framkvæmdastjóri alþjóðamarkaða.
  • Pétur Guðjónsson lætur af störfum framkvæmdastjóra viðskipta- og sölusviðs og tekur við nýju hlutverki hjá Marel utan framkvæmdastjórnar.
  • Markmið skipulagsbreytinganna er að styðja við áframhaldandi vöxt og velgengni með því að bæta þjónustu við viðskiptavini og samræma verkferla fyrirtækisins á starfsstöðvum um allan heim.
  • Nýja skipulagið gerir Marel kleift að vinna nánar með viðskiptavinum og að auka sveigjanleika til þess að styðja við metnaðarfulla vaxtarstefnu fyrirtækisins.

Frá og með deginum í dag, 21. júní 2018, hefur Ulrika Lindberg verið skipuð framkvæmdastjóri þjónustu Marel og Einar Einarsson framkvæmdastjóri alþjóðamarkaða. Þau taka bæði sæti í framkvæmdastjórn Marel og munu heyra undir Árna Odd Þórðarson, forstjóra Marel. Pétur Guðjónsson, fráfarandi framkvæmdastjóri viðskipta- og sölusviðs, mun taka við nýju hlutverki hjá Marel.

Ulrika Lindberg er 50 ára og hefur yfir 20 ára reynslu í alþjóðlegri þjónustu en hún hefur áður gegnt lykilhlutverkum í alþjóðlegum fyrirtækjum eins og Alfa Laval og Tetra Pak. Í fyrra starfi sínu sem yfirmaður alþjóðlegrar þjónustu hjá Alfa Laval byggði Ulrika með góðum árangri upp nýtt svið með það að markmiði að auka þjónustutekjur og bæta þjónustustaðla í alþjóðlegu þjónustuneti fyrirtækisins. Ulrika tekur formlega til starfa hjá Marel þann 15. september nk.

Einar Einarsson er 50 ára og hefur yfir 15 ára reynslu í forystu fyrir sölu- og þjónustustarfsemi Marel í Norður Ameríku. Einar tók við sem framkvæmdastjóri Marel Inc. í Bandaríkjunum árið 2003 og sinnti þar áður öðrum störfum hjá Marel, meðal annars sem söluhönnuður, sölustjóri, og vörustjóri. Einar tekur við sem framkvæmdastjóri alþjóðamarkaða frá og með deginum í dag. Samhliða því mun hann áfram sinna hlutverki framkvæmdastjóra Marel Inc. í Bandaríkjunum þar til eftirmaður hans í því starfi tekur við.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel:

„Marel starfar í síbreytilegu umhverfi þar sem kröfur neytenda þróast hratt. Velgengni Marel á undanförnum árum byggir á samheldnu teymi, sterkum viðskiptasamböndum og umtalsverðum fjárfestingum í nýsköpun, innviðum og aðstöðu um allan heim. Til þess að halda leiðandi stöðu okkur á markaðnum og ná metnaðarfullum vaxtarmarkmiðum verðum við að halda áfram að þróast og bæta upplifun viðskiptavina enn frekar.

„Við erum að breyta innra skipulagi með aukna áherslu á alþjóðamarkaði og þjónustu. Einar Einarsson hefur í störfum sínum hjá Marel sýnt að hann er öflugur og hæfileikaríkur leiðtogi og hann axlar nú aukna ábyrgð sem framkvæmdastjóri alþjóðamarkaða eftir að hafa varið undanförnum 15 árum í að byggja og leiða upp starfsemi Marel í Bandaríkjunum.

„Það er okkur einnig mikil ánægja að fá Ulriku Lindberg til liðs við Marel sem framkvæmdastjóra þjónustu. Hún býr yfir 20 ára reynslu sem leiðtogi í alþjóðlegri þjónustu í rótgrónum fyrirtækjum á borð við Alfa Laval og Tetra Pak.
 
„Ulrika og Einar koma með nýja sýn og mikla reynslu í framkvæmdastjórn Marel sem mun styrkja teymin okkar og starfsemi um heim allan.
 
„Fyrir hönd allra starfsmanna Marel vil ég nota tækifærið til að þakka Pétri Guðjónssyni innilega fyrir dýrmætt framlag og hollustu  í starfi sínu sem framkvæmdastjóri viðskipta- og sölusviðs Marel. Á 34 ára starfsferli sínum hjá Marel hefur Pétur sýnt einstaka leiðtogahæfileika auk þess sem hann hefur gegnt leiðandi hlutverki í þeirri vegferð Marel að verða framúrskarandi á sviði alþjóðlegrar markaðssetningar og sölu. Það er mér mikil ánægja að Pétur skuli halda áfram að starfa hjá Marel og að við fáum áfram tækifæri til þess að njóta góðs af framsýni hans og þeirri víðtæku reynslu sem hann býr yfir eftir þau mörgu störf sem hann hefur sinnt um allan heim fyrir Marel.“

Skipulag Marel – 2018

 


Get in touch

Our dedicated team is here to help and answer any questions you may have. Please complete the form, and we’ll get back to you as soon as possible. We look forward to hearing from you.

Login to get full access

Enter password to continue

Wrong password