Góð rekstrarniðurstaða á ári samstöðu og stefnumarkandi skrefa til vaxtar

Placeholder Image

Marel kynnir afkomu fjórða ársfjórðungs og ársuppgjör 2020 (allar upphæðir eru í evrum)

Helstu atriði:

Árið 2020 – Góð rekstrarniðurstaða og stefnumarkandi skref til vaxtar

  • Pantanir námu 1.234,1 milljónum evra (2019: 1.222,1m).
  • Pantanabókin stóð í 415,7 milljónum evra við lok árs (3F20: 434,4m, 4F19: 414,4m).
  • Tekjur námu 1.237,8 milljónum evra (2019: 1.283,7m).
  • EBIT* nam 166,8 milljónum evra (2019: 173,4m), sem var 13,5% af tekjum (2019: 13,5%).
  • Hagnaður nam 102,6 milljónum evra (2019: 110,1m).
  • Hagnaður á hlut (EPS) var 13,62 evru sent (2019: 15,33 evru sent).
  • Einskiptiskostnaður vegna hagræðingar fyrr á árinu, sem ekki er sérstaklega leiðrétt fyrir, er um 4 milljónir evra. Hagræðingaraðgerðir á fyrri helmingi ársins munu skila sér að fullu árið 2021, með lækkun á kostnaðargrunni sem nemur 8 milljónum evra á ársgrundvelli. Til viðbótar hefur nýtt vinnulag og stafrænar lausnir á tímum heimsfaraldurs sýnt fram á tækifæri til frekari hagræðingar og skilvirkni í rekstri.
  • Handbært fé frá rekstri nam 217,6 milljónum evra (2019: 189,8m).
  • Skuldahlutfall (nettó skuldir/EBITDA) var 1,0x í lok árs (3F20: 0,5x, 2019: 0,4x). Markmið félagsins um fjármagnsskipan er að halda skuldahlutfalli milli 2-3x.

Fjórði ársfjórðungur 2020 – Sterkur fjórðungur í lok árs

  • Pantanir námu 319,7 milljónum evra (4F19: 302,6m).
  • Tekjur námu 343,3 milljónum evra (4F19: 320,1m).
  • EBIT* nam 52,3 milljónum evra (4F19: 32,0m), sem var 15,2% af tekjum (4F19: 10,0%).
  • Hagnaður nam 29,1 milljónum evra (4F19: 10,2m).
  • Hagnaður á hlut (EPS) var 3,87 evru sent (4F19: 1,34 evru sent).
  • Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 38,9 milljónum evra (4F19: 60,2m).
  • Frjálst sjóðstreymi nam 17,7 milljónum evra (4F19: 44,0m).

Samningur um kaup á TREIF undirritaður 8. október 2020

  • TREIF er hluti af samstæðuuppgjöri Marel frá og með fjórða ársfjórðungi.
  • Tekjur TREIF fyrir kaupin námu um 80 milljónum evra á ársgrundvelli, þar af nam EBITDA 13 milljónum evra.
  • Tekjur TREIF á fjórða ársfjórðungi voru góðar og félagið skilaði sterkri rekstrarafkomu.

*Rekstrarniðurstaða aðlöguð fyrir afskrift á óefnislegum eignum sem tengjast yfirtökum (PPA). Frá og með árinu 2020 er einnig aðlagað fyrir kostnaði tengdum yfirtökum.

Ítarlegri umfjöllun um rekstur og afkomu félagsins má finna í enskri útgáfu fréttatilkynningarinnar (íslenska útgáfan veitir aðeins yfirlit yfir helstu þætti uppgjörsins, horfur, fjárfestafund og fjárhagsdagatal).

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri:

"Horft um öxl, er mér efst í huga þakklæti til starfsmanna Marel, viðskiptavina okkar og samstarfsaðila sem allir hafa unnið að sama markmiði, að halda einni mikilvægustu virðiskeðju heims gangandi.

Á sama tíma og við höfum sett öryggi og velferð starfsmanna okkar og viðskiptavina í fyrsta sæti, höfum við mætt hverri áskorun með bjartsýni og þannig tryggt stöðugt framboð af öruggum og hagkvæmum matvælum sem eru framleidd á sjálfbæran hátt fyrir neytendur um heim allan.

Stafrænar lausnir og víðfeðmt sölu- og þjónustunet í öllum heimsálfum hafa á tímum heimsfaraldurs og ferðatakmarkana gert okkur kleift að þjónusta viðskiptavini í yfir 140 löndum. Skjótar ákvarðanir í byrjun árs lögðu grunninn að áframhaldandi nýsköpun og stöðugum rekstri. Við tryggðum hagstæða græna langtímafjármögnun fyrir félagið, við þéttum samstarf við birgja og fjárfestum í öryggisbirgðum af varahlutum og íhlutum, og fluttum allar hefðbundnar sölusýningar yfir á stafrænt form.   

Við enduðum árið með afar góðum fjórðungi þar sem tekjur voru 343 milljónir evra og rekstrarframlegð var yfir 15%. Við nutum meðvindar frá kaupunum á TREIF, en vöru- og þjónustuframboð þeirra var hluti af uppgjöri Marel frá byrjun fjórða ársfjórðungs og hafði jákvæð áhrif á bæði tekjur og framlegð. Staða pantana var góð í árslok og fjárhagsstaða Marel er sterk með hreinar skuldir undir eins árs EBITDA-framlegð.     

Afkoma ársins er vel ásættanleg þar sem hæst ber að mótteknar pantanir voru á pari við fyrra ár, en tekjur og rekstrarhagnaður lækkuðu um 4% á milli ára. Þjónustu- og varahlutatekjur hækkuðu nokkuð á milli ára og námu 40% af heildartekjum ársins.

Stafræn þróun er á ógnarhraða og betri nýting gagna og upplýsingatækni er nú þegar að umbylta virðiskeðju matvæla. Heimsfaraldurinn ýtir enn frekar undir fjárfestingar í sjálfvirkum, sveigjanlegum og sjálfbærum lausnum. 

Marel hefur heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi og hefur fyrst félaga í okkar atvinnugrein skuldbindið sig til setja sér markmið í loftslagsmálum byggð á vísindalegum grunni (Science Based Targets) og birta framgang þeirra í reikningum félagsins í samræmi við alþjóðlega viðurkennda staðla (Task Force on Climate-Related Financial Disclosures - TCFD).

Gera verður ráð fyrir sveiflum á milli ársfjórðunga, sérstaklega nú á tímum umbreytinga og óvissu. Marel stendur sem fyrr við metnaðarfull markmið sín til meðallangs og lengri tíma, með áframhaldandi vexti og virðisaukningu.“

Marel stendur við vaxtarmarkmið til meðallangs og lengri tíma

Marel stendur við markmið sín um 40% framlegð (e. gross profit), 18% sölu-, markaðs- og stjórnunarkostnað og 6% þróunarkostnað, til meðallangs tíma.

Marel stefnir að 12% meðalvexti árlega yfir tímabilið 2017-2026 sem byggir á öflugri markaðssókn og nýsköpun, samstarfi við lykilaðila og yfirtökum á fyrirtækjum, til að geta boðið viðskiptavinum sínum upp á heildarlausnir sem ná yfir allt vinnsluferlið. Árlegur meðalvöxtur tekna fyrir tímabilið 2017-2020 var 6.3%.

Yfirtökur og stefnumótandi samstarf

Með kaupunum á TREIF, þýskum framleiðanda skurðtæknilausna, styrkir Marel vöruframboð sitt á heildarlausnum og styður við sölu staðlaðra lausna. Þá mun alþjóðlegt sölu- og þjónustunet Marel skapa tækifæri til frekari vaxtar í þjónustutekjum með þessari viðbót. TREIF er leiðandi í skurðtæknilausnum og þjónustu í matvælaiðnaði en starfsemi Marel og TREIF fellur vel saman bæði hvað varðar vöruframboð og staðsetningu á mörkuðum. Starfsmenn TREIF eru um 500 og ártekjur félagsins um 80 milljónir evra. Kaupverðið var greitt með 128 milljónum evra í reiðufé og 2,9 milljónum hluta í Marel

Eignarhlutur Marel í Curio, íslenskum framleiðanda fiskvinnsluvéla, jókst úr 39,3% í 50% frá og með 4. janúar 2021, en Marel á jafnframt kauprétt að eftirstandandi 50% hlut eftir þrjú ár. Með vöruframboði Curio í flökun, hausun og roðflettingu getur Marel nú boðið viðskiptavinum heildarlausnir fyrir hvítfiskvinnslu. Curio verður hluti af samstæðuuppgjöri Marel frá og með fyrsta ársfjórðungi 2021.

Marel jók við eignarhlut sinn í kanadíska hugbúnaðarfyrirtækinu Worximity Technology Inc.  úr 14,3% í 25,0%.

Stefnumótandi samstarfi Marel og Tomra, er snýr að bættum skynjaralausnum fyrir viðskiptavini, miðar vel áfram. Á árinu hafa fyrirtækin tvö tekið höndum saman í verkefnum tengdum hátækni skynjaralausnum til að tryggja matvælaöryggi.

Marel lýkur kaupum á PMJ og Stranda Prolog í janúar 2021, eftir lokun reikningsskila

Marel hefur lokið kaupum á PMJ, alþjóðlegum framleiðenda hátæknilausna fyrir vinnslu á andakjöti, líkt og tilkynnt var um þann 21. janúar 2021. Kaupin á PMJ munu styrkja starfsemi Marel í þróun og framleiðslu lausna fyrir andakjöt  sem þriðju stoðina í alifuglaiðnaði til viðbótar við kjúklinga- og kalkúnakjöt. Marel mun  nýta alþjóðlegt sölu- og þjónustunet sitt til að  stækka viðskiptavinahóp sinn í iðnaðinum og fara inn í nýja markaði. Við kaupin verður Marel eina fyrirtækið sem getur boðið viðskiptavinum sínum upp á heildarlausnir sem ná yfir allt vinnsluferlið á andakjöti. Áætluð stærð markaðar fyrir andakjöt er um 4,5 milljón tonn, eða sem nemur  um 6 milljörðum evra að markaðsvirði. Árstekjur PMJ nema um 5 milljónum evra og starfsmenn eru 40 talsins.

Þann 29. janúar 2021 tilkynnti Marel um kaup á 40% hlut í Stranda Prolog, norskum framleiðanda hátæknilausna fyrir laxaiðnað. Þá hafa Marel og Stranda Prolog gert með sér samkomulag um stefnumótandi samstarf. Vöruframboð Stranda Prolog fyrir frumvinnslu laxaiðnaðar auk lausna sem notaðar eru í fiskeldi falla vel saman við vöruframboð Marel og færa félagið nær því að geta boðið viðskiptavinum sínum upp á heildarlausnir sem ná yfir allt vinnsluferlið í laxaiðnaði. Áætluð stærð markaðar fyrir eldislax er um 2,5 milljónir tonna. Félagið er með 25 milljónir evra í árstekjur og starfsmenn eru um 100 talsins.

Fjárfesting í nýsköpun og þróun til að viðhalda tæknilegu forskoti

Árið 2020 nam fjárfesting Marel í nýsköpun og þróun 69,1 milljónum evra, eða um 5,6% af heildartekjum. Þetta er í samræmi við stefnu félagsins um að fjárfesta árlega um 6% af veltu í nýsköpun og vöruþróun sem styður við innri vöxt.

Þrátt fyrir áskoranir sem fylgja heimsfaraldrinum, náðist frábær árangur á sviði nýsköpunar á árinu með öflugu samstarfi við viðskiptavini sem og samstarfsaðila Marel á sviði nýsköpunar og þróunar. Áhersla nýsköpunarverkefna síðustu ára hefur verið á stafræna tækni og heildarlausnir til að auka sjálfvirkni, skilvirkni og betri nýtingu afurða auk þess að gera viðskiptavinum kleift að mæta eftirspurn neytenda sem sækjast eftir jafnvægi í mataræði, rekjanleika og fæðuöryggi. Marel kynnti til leiks fleiri en 30 nýjar hátæknivörur og lausnir á árinu 2020.

Fjárfesting í áframhaldandi vexti

Til að þjóna þörfum viðskiptavina Marel enn betur mun áhersla á stafræna vegferð og þjónustulipurð aukast enn frekar á næstu árum, sem mun leiða til aukinnar fjárfestingar. Marel sér jafnframt tækifæri í aukinni sjálfvirkni og stafrænni þróun í framleiðslueiningum og þjónustuneti félagsins í þeim tilgangi að bæta enn frekar þjónustu við viðskiptavini, sem þurfa að geta aðlagað framleiðslu og dreifingu hratt að breyttu markaðsumhverfi og kauphegðun neytenda.

Áfram verður lögð áhersla á aukna fjárfestingu í framlínu félagsins í sölu og þjónustu til viðskiptavina til að styðja við frekari vöxt, sem og hagræðingu í framleiðslu og á stoðsviðum. Á árinu 2021, mun Marel opna sölu- og þjónustuskrifstofur og sýningarhús í bæði Sjanghæ í Kína og borginni Campinas í Brasilíu, sem mun styðja við markaðsstarf til að umbylta matvælavinnslu í þessum heimshlutum með framboði af háþróuðum sjálfvirkum kerfum og lausnum.

Umbylting matvæla, á sjálfbæran máta (UFS)

Marel hefur skuldbundið sig til þátttöku í Science Based Target verkefninu (SBTi) til þess að uppfylla markmið Parísarsamkomulagsins, og setja sér markmið um það hvernig félagið getur orðið kolefnishlutlaust fyrir árið 2050. Þetta markar mikilvægt skref í vegferð Marel í átt að aukinni sjálfbærni, þar sem nýsköpun og hátæknilausnir spila stórt hlutverk í að auka skilvirkni í framleiðslu á matvælum og því hvernig draga má úr matvælasóun og kolefnisfótspori iðnaðarins.

Til þess að bæta upplýsingagjöf á loftslagstengdum áhættum og tækifærum, hefur Marel einnig skuldbundið sig til þess að innleiða tilmæli Task Force on Climate-Related Financial Disclosures (TCFD) í upplýsingagjöf tengdri loftslagsáhættumati.

Breyttir starfshættir í heimsfaraldri hafa haft jákvæð áhrif á kolefnisspor Marel. Sölu- og markaðsstarf, uppsetning á búnaði, þjónusta og þjálfun viðskiptavina hefur færst yfir á rafrænt form og þar af leiðandi hefur flugferðum starfsmanna fækkað verulega. Áhersla er á að byggja áfram á nýju vinnulagi til frekari hagræðingar.

Marel hefur einsett sér að auka fjölbreytileika, en bætt kynjajafnvægi í framkvæmdastjórn og stjórn fyrirtækisins eru skýr dæmi um metnað á þeim vettvangi.

Marel afhenti Rauða Krossinum eina milljón evra á árinu, sem mun nýta framlagið til þess að auka fæðuöryggi þeirra sem minna mega sín í bágt stöddum samfélögum innan landamæra Suður-Súdan.

Tillaga um arðgreiðslu

Stjórn Marel mun leggja til við aðalfund félagsins, sem haldinn verður þann 17.mars 2021, að hluthafar fái greiddan arð fyrir rekstrarárið 2020 sem nemur 5,45 evru sentum á hlut, eða 6% lægra á hvern hlut samanborið við fyrra ár. Áætluð heildararðgreiðsla nemur um 41,0 milljónum evra sem samsvarar um það bil 40% af hagnaði ársins (2020: 40%, 2019: 30%). Tillagan er í samræmi við markmið félagsins um fjármagnsskipan og 20-40% arðgreiðslustefnu.

Horfur

Markaðsaðstæður hafa verið krefjandi í ljósi umróts á heimsmörkuðum og yfirstandandi COVID-19 heimsfaraldurs. Marel býr að góðri dreifingu tekna á milli markaða og iðnaða í gegnum alþjóðlegt sölu- og þjónustunet sitt ásamt breiðu og framsæknu vöru- og þjónustuframboði. Sem stendur er ekki vitað hver fjárhagsleg áhrif COVID-19 munu verða á Marel.

Marel stendur við vaxtarmarkmið sín til meðallangs- og langs tíma.

Marel stefnir að um 40% framlegð (e. gross profit), 18% sölu-, markaðs- og stjórnunarkostnaði og 6% þróunarkostnaði, til meðallangs tíma.

Marel stefnir að 12% meðalvexti árlega yfir tímabilið 2017-2026 sem byggir á öflugri markaðssókn og nýsköpun, samstarfi við lykilaðila og yfirtökum á fyrirtækjum.

  • Marel gerir ráð fyrir að almennur markaðsvöxtur nemi 4-6% til lengri tíma. Með sterkri markaðssókn og nýsköpun stefnir Marel að innri vexti umfram almennan markaðsvöxt.
  • Gera má ráð fyrir að áframhaldandi traustur rekstur og sterkt sjóðstreymi geti stutt við 5-7% ytri meðalvöxt á ári.
  • Marel gerir ráð fyrir að hagnaður á hlut vaxi hraðar en tekjur.

Áætlaður vöxtur er háður hagsveiflum og þeim tækifærum sem eru í boði hverju sinni og því má gera ráð fyrir að hann verði ekki línulegur. Reikna má með breytilegri afkomu á milli ársfjórðunga vegna efnahagsþróunar, sveifla í pöntunum og tímasetningu stærri verkefna.

Afkomuefni

Ítarlegri umfjöllun um rekstrarafkomu má finna í enskri útgáfu fréttatilkynningar sem er í viðhengi. Sé misræmi á milli uppgjörstilkynninga félagsins á íslensku annars vegar og ensku hins vegar, skal enska útgáfan gilda þar sem tilkynningar eru þýddar af ensku yfir á íslensku.

Rafrænn afkomufundur með markaðsaðilum

Fimmtudaginn 4. febrúar 2021 kl. 8:30 verður haldinn afkomufundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta. Fundurinn verður eingöngu rafrænn en þar munu Árni Oddur Þórðarson forstjóri og Linda Jónsdóttir fjármálastjóri kynna afkomu félagsins og helstu atriði úr rekstri á fjórða ársfjórðungi og árinu í heild sinni.

Fundinum verður vefvarpað beint á marel.com/webcast og upptaka verður aðgengileg á marel.com/ir eftir fundinn.

Markaðsaðilar geta einnig hringt inn á fundinn:

  • IS: +354 800 7520
  • NL: +31 10 712 9162
  • UK: +44 33 3300 9262
  • US: +1 833 526 8384

Fjárhagsdagatal

Marel mun birta árshluta- og ársuppgjör félagsins samkvæmt neðangreindu fjárhagsdagatali:

  • Aðalfundur – 17. mars 2021
  • 1F 2021 – 28. apríl 2021
  • 2F 2021 – 21. júlí 2021
  • 3F 2021 – 20. október 2021
  • 4F 2021 – 2. febrúar 2022

Birting fjárhagsupplýsinga mun eiga sér stað eftir lokun markaðar. Vinsamlegast athugið að dagsetningarnar eru birtar með fyrirvara um breytingar.

Fjárfestatengsl

Nánari upplýsingar veita Fjárfestatengsl Marel í gegnum netfangið IR@marel.com og í síma 563 8001. 

Um Marel

Marel (NASDAQ: MAREL; AEX: MAREL) er í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu tækja, heildarlausna, hugbúnaðar og þjónustu fyrir matvælavinnslu á kjúklingi, kjöti og fiski. Hjá Marel starfa nú um 6.800 manns í yfir 30 löndum, þar af um 720 á Íslandi. Marel velti 1.238 milljónum evra árið 2020, en árlega fjárfestir félagið um 6% af veltu í nýsköpun og vöruþróun sem styður við aukna hagkvæmni, öryggi og sjálfbærni í matvælavinnslu. Félagið var stofnað 1983, skráð í Kauphöll Íslands árið 1992, og tvíhliða skráð í Euronext kauphöllina í Amsterdam í júní 2019.

Athygli fjárfesta er vakin á eftirfarandi:

Sumar staðhæfingar í þessari fréttatilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna við birtingu hennar. Í eðli sínu fela slíkar staðhæfingar því í sér óvissu. Við vekjum þess vegna athygli fjárfesta á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í þessari tilkynningu. Tilkynningin verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað þetta varðar.

Gögn um markaðshlutdeild

Yfirlýsingar um markaðshlutdeild, þar með taldar þær sem varða samkeppnisstöðu Marel, byggjast á utanaðkomandi heimildum og gögnum, svo sem gögnum frá rannsóknastofnunum, iðnaðar- og sölunefndum og hópum, ásamt mati stjórnenda Marel. Séu upplýsingar ekki tiltækar fyrir Marel kunna slíkar yfirlýsingar að vera byggðar á áætlunum og mati utanaðkomandi aðila og/eða stjórnenda. Markaðsstaða er byggð á sölutölum nema annað sé tekið fram.

Sé misræmi á milli uppgjörstilkynninga félagsins á íslensku annars vegar og ensku hins vegar, skal enska útgáfan gilda þar sem tilkynningar eru þýddar af ensku yfir á íslensku.

Marel Q4 2020 Press Release

 

Marel Consolidated Financial Statements 2020

 

Marel Consolidated Financial Statements 2020 (Excel)

 

Marel 2020 ESG Report

Get in touch

Our dedicated team is here to help and answer any questions you may have. Please complete the form, and we’ll get back to you as soon as possible. We look forward to hearing from you.

Login to get full access

Enter password to continue

Wrong password