Helstu atriði 2F 2019
- Pantanir námu 311,2 milljónum evra (2F18: 291,1m).
- Tekjur námu 326,5 milljónum evra (2F18: 296,7m).
- EBIT* nam 49,6 milljónum evra (2F18: 43,2m), sem var 15,2% af tekjum (2F18: 14,6%).
- Hagnaður nam 34,3 milljónum evra (2F18: 29,5m).
- Hagnaður á hlut (EPS) var 5,16 evru sent (2F18: 4,31 evru sent).
- Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 22,3 milljónum evra (2F18: 56,4m).
- Skuldahlutfall (nettó skuldir/EBITDA) var x0,6 í lok júní (1F19: x2,2). Markmið félagsins um fjármagnsskipan er að halda skuldahlutfalli milli x2-3 nettó skuldir/EBITDA.
- Pantanabókin stóð í 459,4 milljónum evra við lok annars ársfjórðungs (1F19: 474,7m og 2F18: 523,2m)
*Rekstrarniðurstaða aðlöguð fyrir afskrift á óefnislegum eignum sem tengjast yfirtökum (PPA).
Ítarlegri umfjöllun um rekstur og afkomu félagsins má finna í enskri útgáfu fréttatilkynningarinnar (íslenska útgáfan fjallar einungis um helstu þætti uppgjörsins, horfur, fjárfestafund og fjárhagsdagatal).
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri:
“Annar ársfjórðungur var sannarlega viðburðarríkur fyrir Marel. Óhætt er að segja að skráningin í Euronext kauphöllina í Amsterdam og útgáfa 15% nýs hlutafjár hafi borið hæst á fjórðungnum samhliða áframhaldandi vexti og góðri rekstrarafkomu.
Tekjur námu 327 milljónum evra, sem er 10% hækkun samanborið við sama tímabil í fyrra og rekstrarhagnaður jókst um 15%. EBIT framlegð var 15,2% til samanburðar við 14,6% á öðrum ársfjórðungi síðasta árs.
Mótteknar pantanir voru 311 milljónir evra sem er 7% aukning frá öðrum ársfjórðungi síðasta árs en lítilleg lækkun frá sterkum fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Við sjáum sveiflur á mörkuðum þar sem aukning er í pöntunum á stærri verkefnum í Asíu og Kína, á meðan hægst hefur á stærri pöntunum í Evrópu og Norður Ameríku. Á móti kemur góður vöxtur í endurnýjunar- og viðhaldsverkefnum hjá viðskiptavinum okkar í Evrópu og Norður Ameríku.
Við erum afar þakklát fyrir það traust sem Marel var sýnt í hlutafjárútboðinu í tengslum við tvíhliða skráningu félagsins á alþjóðlegan hlutabréfamarkað. Þátttakendur voru virtir alþjóðlegir hornsteinsfjárfestar auk einstaklinga og fagfjárfesta, hér heima og erlendis. Alls tóku 4.700 fjárfestar þátt í útboðinu en fyrir skráningu félagsins í Euronext Amsterdam voru hluthafar félagsins 2.500 talsins. Skráningin í Euronext kauphöllina í Amsterdam mun styðja við næstu skref í framþróun Marel þar sem aukinn seljanleiki bréfanna á alþjóðavísu veitir félaginu gjaldmiðil í tengslum við fyrirtækjakaup. Vöxtur félagsins er knúinn áfram af nýsköpun og markaðssókn ásamt ytri vexti.
Að því sögðu erum við á réttri leið með að ná vaxtarmarkmiðum okkar fyrir árið 2026, sem eru 3 milljarðar evra í tekjur og fyrsta flokks arðsemi. Í samstarfi við viðskiptavini okkar viljum við umbylta matvælaframleiðslu á heimsvísu með áherslu á fæðuöryggi, rekjanleika, sjálfbærni og hagkvæmni.”
Skráning í Euronext kauphöllina í Amsterdam
Þann 7. júní 2019 voru hlutabréf Marel í evrum tekin til viðskipta í Euronext kauphöllinni í Amsterdam, til viðbótar við fyrri skráningu félagsins í Nasdaq kauphöllina á Íslandi. Boðnir voru til sölu 100 milljónir nýrra hluta, eða sem samsvarar um 15% af útgefnu hlutafé. Margföld umframeftirspurn var í útboðinu með mikilli eftirspurn frá einstaklingum og fagfjárfestum. Inngreiðsla hlutafjár að teknu tilliti til kostnaðar nemur 352 milljónum evra.
Marel fjárfestir í Worximity Technology Inc.
Í júní 2019 gekk Marel frá samningum um kaup á 14,3% hlut í kanadíska hugbúnaðarfyrirtækinu, Worximity Technology Inc. fyrir 2,5 milljónir Kanadadollara ( 1,8 milljónir evra). Marel hyggst auka hlut sinn í 25% á næstu tólf mánuðum fyrir 2,5 milljónir Kanadadollara.
Worximity býður upp á greiningarlausnir og söfnun rauntímagagna í skýinu sem fara saman við Innova-framleiðsluhugbúnað Marel. Hjá félaginu starfa um 25 manns sem þjónusta yfir 200 viðskiptavini. Megináhersla félagsins er að þjónusta fyrirtæki sem starfa við vinnslu á kjöti, mjólkurafurðum og brauðmeti, og nota Worximity hugbúnaðinn við að nýta hráefni betur, minnka framleiðslutíma og auka afköst og gæði.
Horfur
Markaðsaðstæður hafa verið einstaklega góðar á síðustu árum en eru nú meira krefjandi í ljósi umróts á heimsmörkuðum. Marel býr að góðri dreifingu tekna á milli markaða og iðnaða í gegnum alþjóðlegt sölu- og þjónustunet sitt ásamt breiðu og framsæknu vöru- og þjónustuframboði.
Marel stefnir að 12% meðalvexti árlega yfir tímabilið 2017-2026 sem byggir á öflugri markaðssókn og nýsköpun, samstarfi við lykilaðila og yfirtökum á fyrirtækjum.
- Marel gerir ráð fyrir að almennur markaðsvöxtur nemi 4-6% til lengri tíma. Með sterkri markaðssókn og nýsköpun stefnir Marel að innri vexti umfram almennan markaðsvöxt.
- Gera má ráð fyrir að áframhaldandi traustur rekstur og sterkt sjóðstreymi geti stutt við 5-7% ytri meðalvöxt á ári.
- Marel gerir ráð fyrir að hagnaður á hlut vaxi hraðar en tekjur.
Áætlaður vöxtur er háður hagsveiflum og þeim tækifærum sem eru í boði hverju sinni og því má gera ráð fyrir að hann verði því ekki línulegur. Reikna má með breytilegri afkomu á milli ársfjórðunga vegna efnahagsþróunar, sveifla í pöntunum og tímasetningu stærri verkefna.
Afkomuefni
Ítarlegri umfjöllun um rekstrarafkomu er að finna í enskri útgáfu fréttatilkynningar sem er í viðhengi. Sé misræmi á milli uppgjörstilkynninga félagsins á íslensku annars vegar og ensku hins vegar, skal enska útgáfan gilda þar sem tilkynningar eru þýddar af ensku yfir á íslensku.
Fjárfestafundur
Fimmtudaginn 25. júlí 2019 kl. 8:30 verður haldinn afkomufundur með markaðsaðilum og fjárfestum. Þar munu Árni Oddur Þórðarson forstjóri og Linda Jónsdóttir fjármálastjóri kynna afkomu félagsins og helstu atriði úr rekstri á öðrum ársfjórðungi.
Afkomufundurinn verður haldinn í höfuðstöðvum félagsins, Austurhrauni 9 í Garðabæ. Boðið verður upp á morgunverð frá kl. 8:00.
Fundinum verður vefvarpað á marel.com/webcast og upptaka verður aðgengileg á marel.com/IR eftir fundinn.
Markaðsaðilar geta einnig hringt inn á fundinn:
- IS: +354 8007508
- NL: +31 207219496
- UK: +44 3333009031
- US: +1 8335268395
Fjárhagsdagatal
Marel mun birta árshluta- og ársuppgjör félagsins og halda aðalfund samkvæmt neðangreindu fjárhagsdagatali:
- 3F 2019 - 23. október 2019
- 4F 2019 - 5. febrúar 2020
- Aðalfundur - 4. mars 2020
Birting fjárhagsupplýsinga mun eiga sér stað eftir lokun markaða.
Fjárfestatengsl
Nánari upplýsingar veita fjárfestatengsl Marel í gegnum netfangið IR@marel.com og í síma 563 8001.
Um Marel
Marel (NASDAQ: MAREL; AEX: MAREL) er í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu tækja, heildarlausna, hugbúnaðar og þjónustu fyrir matvælavinnslu á kjúklingi, kjöti og fiski. Hjá félaginu starfa yfir 6000 manns í yfir 30 löndum, þar af um 720 á Íslandi. Marel velti 1,2 milljarði evra árið 2018 en árlega fjárfestir Marel um 6% af veltu í nýsköpun og vöruþróun sem styður við aukna hagkvæmni, öryggi og sjálfbærni í matvælavinnslu. Félagið var skráð í Kauphöll Íslands árið 1992, en í júní 2019 fór fram tvíhliða skráning á 15% hlutabréfa í félaginu í Euronext kauphöllinni í Amsterdam.
Athygli fjárfesta er vakin á eftirfarandi:
Sumar staðhæfingar í þessari fréttatilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna við birtingu hennar. Í eðli sínu fela slíkar staðhæfingar því í sér óvissu. Vakin er athygli fjárfesta á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í þessari tilkynningu. Tilkynningin verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað þetta varðar.
Gögn um markaðshlutdeild
Yfirlýsingar um markaðshlutdeild, þar með taldar þær sem varða samkeppnisstöðu Marel, byggjast á utanaðkomandi heimildum og gögnum, svo sem gögnum frá rannsóknastofnunum, iðnaðar- og sölunefndum og hópum, ásamt mati stjórnenda Marel. Séu upplýsingar ekki tiltækar fyrir Marel kunna slíkar yfirlýsingar að vera byggðar á áætlunum og mati utanaðkomandi aðila og/eða stjórnenda. Markaðsstaða er byggð á sölutölum nema annað sé tekið fram.
Sé misræmi á milli uppgjörstilkynninga félagsins á íslensku annars vegar og ensku hins vegar, skal enska útgáfan gilda þar sem tilkynningar eru þýddar af ensku yfir á íslensku.
2Q19 Press Release Vf
Marel Q2 2019 Condensed Consolidated Interim Financial Statements Excel