Marel fagnar 30 árum í kauphöllinni

Abstract 5.jpg

Marel fagnar 30 ára skráningarafmæli í NASDAQ kauphöllinni í dag 29. Júní 2022. Marel er stærsta og verðmætasta félagið í kauphöllinni og eru jafnframt mest viðskipti með bréf félagsins á íslenska hlutabréfamarkaðnum.

30 ár sem skráð félag á markaði

Skráning Marel í kauphöllina á Íslandi 1992 var mikið heillaskref. Með stöðuga nýsköpun að leiðarljósi hefur Marel umbreyst úr sprotafyrirtæki í alþjóðlegt hátæknifyrirtæki í lausnum í hugbúnaði og þjónustu fyrir matvælaiðnað. Hlutabréfamarkaðurinn hefur stutt við vöxt félagsins og hjálpað því að dafna.

Með nýsköpun og sjálfbærni að leiðarljósi heldur Marel áfram að umbylta matvælaframleiðslu á heimsvísu. Árlega fjárfestir félagið 6% af tekjum í nýsköpun og þróun, eða sem nam um 11,3 milljörðum króna árið 2021, sem gerir viðskiptavinum okkar kleift að sjálfvirknivæða og innleiða stafrænar lausnir í framleiðslu sína fyrir aukna hagkvæmni, fæðuöryggi og sjálfbærni. Fyrsta Marel-vogin var hönnuð árið 1978 í Raunvísindastofnun Háskóla Íslands og varð það kveikjan að gagnabyltingu í íslenskum sjávarútvegi. Allar götur síðan hefur Marel byggt á gagnasöfnun og nýsköpun til þess að auka verðmæti og minnka sóun.

Frá 45 starfsmönnum í yfir 7.000 starfsmenn

Frá skráningu í íslensku Nasdaq kauphöllina 1992, hefur Marel vaxið frá því að vera með 45 starfsmenn, í yfir 7.000 starfsmenn í 30 löndum í dag, þar af yfir 750 á Íslandi. Á sama tíma hafa tekjur félagsins vaxið úr 6 milljónum evra í 1,4 milljarða evra árið 2021. Tekjuvöxtur hefur verið um 20% á ári að meðaltali síðustu 30 ár. Trú hluthafa á félaginu gefur okkur mikinn styrk í áframhaldandi sókn á helstu mörkuðum og vaxtarstefnu um að ná 3 milljörðum í árstekjur árið 2026.

Starfsmenn Marel eiga mikið hrós skilið. Það eru mikil forréttindi að vinna með svo kraftmiklum og framsæknum hópi fólks, sem í samstarfi við viðskiptavini og samstarfsaðila færa okkur nær sjálfbærri framtíð í matvælavinnslu um heim allan.

Fjárfestatengsl

Nánari upplýsingar veita fjárfestatengsl Marel í gegnum netfangið ir@marel.com og í síma 563 8001.


Get in touch

Our dedicated team is here to help and answer any questions you may have. Please complete the form, and we’ll get back to you as soon as possible. We look forward to hearing from you.

Login to get full access

Enter password to continue

Wrong password