Marel lýkur kaupum á Wenger

Abstract (5).jpg

Marel hefur gengið frá kaupum á Wenger, leiðandi fyrirtæki í lausnum og þjónustu fyrir framleiðendur á matvælum fyrir gæludýr, fóðri fyrir fiskeldi og markaðsaðila sem eru að hasla sér völl á ört vaxandi neytendavörumarkaði með afurðir úr plöntupróteinum (e. plant-based protein). Heildarkaupverð er 540 milljónir bandaríkjadala. Stefna og fyrirtækjamenning félaganna tveggja falla afar vel saman, og það sama gildir um vöruframboð og landfræðilega dreifingu. Saman munu félögin geta mætt aukinni eftirspurn eftir hagkvæmum og sjálfbærum matvælum og fóðri á heimsvísu.

Helstu atriði viðskiptanna

Marel hefur gengið frá kaupum á Wenger Manufacturing LLC, leiðandi framleiðanda á lausnum fyrir matvælavinnslu fyrir gæludýr, plöntuprótein og fóður fyrir fiskeldi, en tilkynnt var um viðskiptin 27. apríl síðastliðinn.  Kaupin voru gerð með hefðbundnum fyrirvörum, þ.m.t. fyrirvara um samþykki samkeppnisyfirvalda og hluthafa Wenger. Fyrirvararnir hafa nú verið uppfylltir án athugasemda og var því gengið frá kaupunum í dag, 9. júní 2022.

  • Fjórða stoðin bætist við viðskiptamódel Marel með kaupunum, til viðbótar við núverandi starfsemi í alifugla-, kjöt- og fiskiðnaði. Frá og með þriðja ársfjórðungi 2022, mun Marel birta fjárhagslega afkomu einingarinnar sérstaklega í samstæðuuppgjöri félagsins.
  • Áætlað er að kaupin muni hafa jákvæð áhrif á bæði framlegð og hagnað, en gert er ráð fyrir að nýtt tekjusvið telur pro-forma 10% af tekjum og 12% af sameiginlegri EBITDA-framlegð hjá sameinuðu félagi.
  • Starfsmenn eru yfir 500 talsins en félagið er meðal annars með starfsstöðvar nálægt Marel í Kansas í Bandaríkjunum, Valinhos í Brasilíu og Kolding í Danmörk. Áætlaðar árstekjur Wenger fyrir árið 2022 nema um 190 milljónum bandaríkjadala, EBITDA er áætlað 32-35 milljónir bandaríkjadala og EBIT-framlegð hefur verið 14-15% síðastliðin ár.
  • Heildarkaupverð er 540 milljónir bandaríkjadala en margfaldari í viðskiptunum er 14x EV/EBITDA (Heildarvirði/EBITDA) að teknu tilliti til væntra jákvæðra skattalegra áhrifa að fjárhæð 60-70 milljónir bandaríkjadala.
  • Kaupverðið, sem byggist á heildarvirði (e. enterprise value), var annars vegar greitt með 526 milljónum bandaríkjadala í reiðufé og núverandi lánalínum, og hins vegar með um 960 þúsund hlutum í Marel. Eftirstandandi fjárhæð 10 milljónir bandaríkjadala, er í formi framlags til góðgerðasjóðs sem verður stofnaður í nafni Wenger sem og hlutabréfa í Marel sem afhent verða starfsmönnum Wenger.
  • Kaupin eru fjármögnuð með sterkum efnahagsreikningi Marel og núverandi lánalínum.

 

Kaupin á Wenger mynda fjórðu tekjustoð félagsins

Kaupin á Wenger eru mikilvægt skref inn á nýja og spennandi vaxtarmarkaði þar sem hátæknilausnir Wenger á sviði þrýstimótunar (e. extrusion) og þurrkunar (e. dryer technology) mynda kjarnann í nýju tekjusviði Marel. Wenger deilir metnaði Marel fyrir nýsköpun og vöruþróun á hátæknilausnum, þar sem árangur er drifinn áfram af metnaðarfullum hópi starfsmanna og þéttu samstarfi við viðskiptavini. Wenger hefur fjölbreyttan og tryggan viðskiptavinahóp, allt frá sprotafyrirtækjum með áherslu á plöntuprótein til stórra alþjóðlegra framleiðenda gæludýrafóðurs. Þetta hefur skilað sér í góðri arðsemi með 14-15% EBIT framlegð, sterku sjóðstreymi og traustri ávöxtun fjármagns.

Pro-forma er Wenger 10% af heildartekjum og um 12% af heildar EBITDA-framlegð hjá sameinuðu félagi. Meira en 60% af tekjum Wenger koma frá sölu á lausnum fyrir gæludýrafóður þar sem félagið er leiðandi á heimsvísu. Wenger er með sterka fótfestu í Norður-Ameríku og þjónustutekjur eru yfir 40% af heildartekjum. Innri árlegur tekjuvöxtur félagsins nam um 5% á árunum 2017-2021. Áætlaðar árstekjur 2022 nema um 190 milljónum bandaríkjadala, og EBITDA er áætlað 32-35 milljónir bandaríkjadala.

Nýja stoðin verður áfram rekin sem sjálfstæð eining, og munu stjórnendur þess heyra undir Árna Sigurðsson, framkvæmdastjóra stefnumótunar og stefnumarkandi rekstrareininga. Frá og með þriðja ársfjórðungi 2022, mun Marel birta fjárhagslega afkomu einingarinnar sérstaklega í samstæðuuppgjöri félagsins, samhliða afkomueiningunum kjúklingi, kjöti og fiski.

Nýir og spennandi vaxtamarkaðir

Það eru mikil tækifæri til vaxtar og virðisaukningar með því að virkja alþjóðlegt sölu- og þjónustunet Marel og stafrænar lausnir á mörkuðum Wenger. Alþjóðlegur markaður fyrir gæludýrafóður er metinn á yfir 100 milljarða evra og markaður fyrir fiskeldisfóður á yfir 50 milljarða evra, en árlegur vöxtur þeirra er áætlaður um 5-6%. Markaður fyrir plöntuprótein (e. plant-based protein) er um 7 milljarðar evra og er áætlað að hann vaxi um 15-20% árlega.

Markaðstækifæri (e. addressable market) Marel og Wenger fyrir lausnir og þjónustu á sviði gæludýrafóðurs, plöntupróteins og fiskeldisfóðurs er metinn á um 2 milljarða evra og ársvöxtur er áætlaður 4-6%, sem er í samræmi við áætlanir Marel um markaðsvöxt til lengri tíma.

Stefnt að styrkja heildarlínur með breiðara vöruframboði

Wenger er leiðandi á heimsvísu í lausnum og þjónustu til matvælavinnslu fyrir gæludýr og fyrir fóður til fiskeldis. Á síðustu árum hefur Wenger náð góðri markaðsstöðu í ört vaxandi iðnaði fyrir vinnslu plöntupróteina fyrir neytendamarkað með hátæknilausnum sem staðsettar eru í miðri framleiðslukeðjunni (e. secondary processing).

Tæknilausnir og vöruframboð félaganna falla vel saman og munu hraða vegferð okkar að bjóða heildarlausnir fyrir vinnslu plöntupróteina. Hátæknilausnir Wenger á sviði þrýstimótunar (e. extrusion) og þurrkunar (e. dryer technology) mynda kjarnann í virðiskeðjunni sem ræður áferð og gæðum lokaafurðarinnar. Samlegð vöruframboða gerir okkur því kleift að bjóða upp á heildarlausnir með því að samþætta tækni á borð við vigtun, flokkun, sjóntækni, mótun og hitameðhöndlun, með það markmið að tryggja næringarrík matvæli framleidd á öruggan og sjálfbæran hátt.

Fjárfesting í áframhaldandi vexti

Marel sér stór tækifæri fyrir sameinað félag og mun fjárfesta í rekstrinum til að stuðla að vexti. Fyrirhuguð er fjárfesting í aukinni framleiðslugetu til að bregðast við mikilli eftirspurn viðskiptavina eftir lausnum Wenger, þá sérstaklega í lausnum fyrir gæludýrafóður. Alþjóðlegt sölu- og þjónustunet Marel auk stafrænna lausna mun stuðla að aukinni fyrirbyggjandi þjónustu og þar af leiðandi betri þjónustu við viðskiptavini um heim allan, og nýta viðskiptasambönd beggja félaga til að skapa tækifæri til frekari vaxtar.

Frekari upplýsingar um kaupin á Wenger, viðskiptamódel Marel, vaxtastefnu félagsins og annað fjárfestaefni má finna á marel.com/ir.

 

Nánari upplýsingar veita:

Fjárfestatengsl Marel:
Tinna Molphy
IR@marel.com og sími 563 8001

 

Um Marel

Marel er í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu tækja, hugbúnaðar og þjónustu fyrir matvælavinnslu á kjúklingi, kjöti og fiski. Í gegnum árin, hefur Marel skref fyrir skref, útvíkkað starfsemi sína. Með kaupunum á Wenger, sem tilkynnt voru 27. apríl, myndast fjórða stoðin í viðskiptamódeli Marel með áherslu á lausnum fyrir matvælavinnslu fyrir gæludýr, plöntuprótein og fóður fyrir fiskeldi. Hjá félaginu starfa yfir 7.500 manns í yfir 30 löndum, þar af um 750 á Íslandi. Marel velti um 1,4 milljarði evra árið 2021 en árlega fjárfestir Marel um 6% af veltu í nýsköpun og vöruþróun sem styður við aukna hagkvæmni, öryggi og sjálfbærni í matvælavinnslu. Félagið hefur verið skráð í Kauphöll Íslands síðan árið 1992 og var lokið við tvíhliða skráningu í Euronext Kauphöllina í Amsterdam árið 2019. Frekari upplýsingar má finna á marel.com/ir.

Um Wenger

Wenger er fjölskyldufyrirtæki með höfuðstöðvar í Sabetha í Kansas í Bandaríkjunum, og er leiðandi á heimsvísu í hátæknilausnum til framleiðslu á gæludýrafóðri, plöntupróteini (e. plant-based protein) og fóðri fyrir fiskeldi. Félagið var stofnað árið 1935 af þeim Joe and Lou Wenger með auka áherslu á hagkvæmni í framleiðslu á nautgripafóðri. Með þrýstimótunartækni sinni hefur Wenger gjörbylt matvæla- og fóðurvinnslu fyrir menn og dýr. Orðspor félagsins er afar gott og vörur þess og þekking framúrskarandi. Starfsmenn eru yfir 500 talsins en félagið er meðal annars með starfsstöðvar í Kansas í Bandaríkjunum, Valinhos í Brasilíu og Kolding í Danmörku. Wenger hefur fjölbreyttan og tryggan viðskiptavinahóp, allt frá smáum sérhæfðum viðskiptavinum upp í stóra alþjóðlega matvælaframleiðendur. Áætlaðar árstekjur félagsins fyrir 2022 nema 190 milljónum Bandaríkjadala og EBITDA fyrir sama tímabil er áætlað 32-35 milljónir Bandaríkjadala.Get in touch

Our dedicated team is here to help and answer any questions you may have. Please complete the form, and we’ll get back to you as soon as possible. We look forward to hearing from you.

Login to get full access

Enter password to continue

Wrong password