Með samningnum hefur Marel tryggt langtímafjármögnun fyrir félagið á hagstæðari kjörum en áður. Nýja lánalínan kemur í stað fyrri fjármögnunar félagsins sem síðast var framlengd árið 2017 og samanstóð annars vegar af tveimur lánum að fjárhæð 153 milljónir evra og 75 milljónir bandaríkjadala, og hins vegar af lánalínu að fjárhæð 323 milljónir evra.
Lánssamningurinn er til fimm ára með möguleika á framlengingu í allt að tvö ár, en verði samningurinn framlengdur er lokagjalddagi í febrúar 2027.
Vaxtakjör eru EURIBOR/LIBOR + 80 punktar og munu þau taka breytingum í samhengi við skuldahlutfall (nettó skuldir/EBITDA) félagsins og notkun línunnar. Búast má við því að fjármögnunarkostnaður félagsins muni lækka til lengri tíma litið í ljósi þess að nýja lánalínan felur í sér hagstæðari kjör en áður.
Nýja lánalínan gerir Marel kleift að nýta lausafé sitt á hagfelldari hátt og eykur sveigjanleika sem styður við frekari vöxt félagsins. Lánið byggir á hefðbundnum fjárfestingarflokksskilmálum samkvæmt stöðlum Loan Market Association (e. investment-grade Loan Market Association).
Vaxtakjör nýja lánsins eru einnig tengd árangri Marel við að ná fram markmiðum um sjálfbærni, samkvæmt fyrirfram ákveðnum mælikvörðum á frammistöðu (e. key performance indicators). Vaxtakjörin verða þannig hagfelldari, eða eftir atvikum hærri eftir því hversu mörgum sjálfbærnimarkmiðum félagið nær á lánstímanum. Marel skrifaði undir Global Compact yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna árið 2015, og hefur fylgt ESG viðmiðunarreglum Nasdaq frá árinu 2017.
Linda Jónsdóttir, fjármálastjóri Marel:
„Nýja lánalínan er viðurkenning á fjárhagslegum styrk Marel og því trausti sem viðskiptabankar okkar bera til félagsins. Hagfelld kjör og aukinn sveigjanleiki í skilmálum munu veita okkur frekara svigrúm í rekstri og þróun félagsins og styðja okkur í að ná langtímamarkmiðum okkar. Við erum sérstaklega ánægð með að tengja lánið við sjálfbærnimarkmið, en það hjálpar okkur að uppfylla sýn okkar um heim þar sem gæðamatvæli eru framleidd á sjálfbæran og hagkvæman hátt.“
Þátttakendur í lánalínunni eru sjö leiðandi bankar á alþjóðlega vísu og eru það ABN AMRO, BNP Paribas, Danske Bank, HSBC, ING Bank, Rabobank og UniCredit. Bankarnir falla vel að alþjóðlegri starfsemi Marel og eru vel í stakk búnir að styðja við starfsemi félagsins til lengri tíma litið. Skrifað var undir samning um lánalínuna þann 5. febrúar 2020 og verður hún virk á næstu dögum þegar hefðbundin skilyrði hafa verið uppfyllt.
Fjárfestatengsl
Nánari upplýsingar veita Fjárfestatengsl Marel í gegnum netfangið IR@marel.com og í síma 563 8001.
Um Marel
Marel (NASDAQ: MAREL; AEX: MAREL) er í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu tækja, heildarlausna, hugbúnaðar og þjónustu fyrir matvælavinnslu á kjúklingi, kjöti og fiski. Hjá félaginu starfa yfir 6000 manns í yfir 30 löndum, þar af um 720 á Íslandi. Marel velti 1,3 milljarði evra árið 2019 en árlega fjárfestir Marel um 6% af veltu í nýsköpun og vöruþróun sem styður við aukna hagkvæmni, öryggi og sjálfbærni í matvælavinnslu. Félagið var skráð í Kauphöll Íslands árið 1992, en í júní 2019 fór fram tvíhliða skráning á hlutabréfum í félaginu í Euronext kauphöllinni í Amsterdam.