Það er okkur sönn ánægja að tilkynna um ráðningu Viðars Erlingssonar í stöðu framkvæmdastjóra Marel Software Solutions. Í nýju starfi mun Viðar bera ábyrgð á framtíðarsýn og stefnu hugbúnaðarlausna Marel á heimsvísu. Í því felst meðal annars að tryggja stöðu félagsins sem lykilsölu- og þjónustuaðila á sviði stafrænna lausna í matvælavinnslu fyrir viðskiptavini okkar. Við innleiðingu nýs skipulags sem kynnt var á dögunum, verður Marel Software Solutions eitt sjö tekjusviða Marel. Þannig verður skerpt á heildrænni yfirsýn og ábyrgð samhliða því að við höldum áfram að efla stafrænt framboð til viðskiptavina okkar.
Viðar kemur til Marel frá Össuri, þar sem hann leiddi svið upplýsingatækni og stafrænna lausna. Hann á að baki langan og farsælan feril hjá Marel sem spannar yfir 20 ár. Viðar hóf fyrst störf hjá Marel árið 2000 sem verkfræðingur í rannsóknum og þróun. Hann hefur gegnt fjölbreyttum hlutverkum innan fyrirtækisins allt þar til hann lét af störfum árið 2020, þá sem framkvæmdastjóri nýsköpunar og þróunar. Viðar lék lykilhutverk í þróun Sensor X tækni Marel og þeim frábæra árangri sem lausnin hefur náð á markaði. Sensor X umbylti öryggi og gæðum matvæla og margir framsýnustu matvælaframleiðendur heims nýta lausnina til að greina bein og aðra aðskotahluti í matvælum.
Árni Sigurðsson, Chief Business Officer og Deputy CEO Marel: „Ég fagna því að fá Viðar aftur til starfa hjá Marel. Viðar hefur sýnt framúrskarandi leiðtogahæfileika í fyrri störfum hjá félaginu og undanfarin ár hefur hann dýpkað þekkingu sína á sviði hugbúnaðarlausna hjá Össuri. Ég er sannfærður um að Viðar muni leiða Software Solutions hjá Marel til árangurs með farsælum hætti. Stöðug þróun og markaðssetning stafrænna lausna er lykildrifkraftur metnaðarfullrar framtíðarsýnar og vaxtarmarkmiða Marel.“