Marel: Mótteknar pantanir námu 407 milljónum evra, betri markaðshorfur

Abstract 5.jpg

Marel kynnir afkomu annars ársfjórðungs 2023

  • Bati í mótteknum pöntunum frá fyrsta ársfjórðungi, pípan er sterk og gefur fyrirheit um aukningu í mótteknum pöntunum á komandi ársfjórðungum
  • Tekjur námu 422 milljónum evra sem er samdráttur frá fyrsta ársfjórðungi sem skýrist af lægri mótteknum pöntunum á stærri verkefnum á fyrri ársfjórðungum. Þjónustutekjur vógu þungt og námu 198 milljónum evra
  • EBIT-framlegð var 8% sem skýrist af lágum pöntunum á stærri verkefnum á undanförnum ársfjórðungum. Gert er ráð fyrir batnandi framlegð á komandi ársfjórðungum í ljósi bata í markaðshorfum og aðfangakeðju, sem og vegna hagræðingaraðgerða
  • Áætlanir félagsins benda nú til 12-14% EBIT-framlegðar á fjórða ársfjórðungi þessa árs, samanborið við markmið um 14-16%. Áhersla er lögð á góðan vöxt á lægri kostnaðargrunni sem skili stöðugri 14-16% EBIT-framlegð eftir því sem fjórðungum á fjárhagsárinu 2024 vindur fram
  • Eldra sambankalán framlengt og samið um nýtt 150 milljón evra lán

 

Helstu atriði í afkomu annars ársfjórðungs 2023:

  • Pantanir námu 406,5 milljónum evra (1F23: 362,6m, 2F22: 471,8m)
  • Pantanabókin stóð í 574,5 milljónum evra (1F23: 590,4m, 2F22: 774,5m)
  • Tekjur námu 422,4 milljónum evra (1F23: 447,4m, 2F22: 397,3m)
  • Hlutfall pantana á móti tekjum (e. Book-to-bill) var 0,96 og hlutfall pantanabókar samsvarar 31,7% af tekjum síðustu tólf mánaða
  • EBIT1 nam 33,8 milljónum evra (1F23: 40,2m, 2F22: 25,0m), sem var 8,0% af tekjum (1F23: 9,0%, 2F22: 6,3%)
  • Hagnaður nam 3,1 milljónum evra (1F23: 9,1m, 2F22: 9,6m)
  • Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 27,1 milljónum evra (1F23: 34,3m, 2F22: 18,4m)
  • Frjálst sjóðstreymi var neikvætt sem nam 6,1 milljónum evra (1F23: -0,3m, 2F22: -7,9m)
  • Skuldahlutfall (nettó skuldir/EBITDA) var 3,5x í lok júní (1F23: 3,5x, 2F22: 3,8x) eftir kaupin á Wenger á öðrum ársfjórðungi 2022. Áhersla lögð á að ná aftur markmiði félagsins um fjármagnsskipan sem er að halda skuldahlutfalli milli 2-3x

Hálfsársuppgjör 2023 (1H23):

  • Pantanir námu 769,1 milljónum evra (1H22: 893,5m)
  • Tekjur námu 869,8 milljónum evra (1H21: 768,9m)
  • EBIT1 nam 74,0 milljónum evra (1H22: 56,3m), sem var 8,5% af tekjum (1H21: 7,3%)
  • Hagnaður nam 12,2 milljónum evra (1H22: 31,3m)
  • Hagnaður á hlut (EPS) var 1,62 evru sent (1H22: 4,14 evru sent)
  • Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 61,4 milljónum evra (1H22: 51,1m)
  • Frjálst sjóðstreymi var neikvætt sem nam 6,4 milljónum evra (1H22: 6,7m)

Ítarlegri umfjöllun um rekstur og afkomu félagsins má finna í enskri útgáfu fréttatilkynningarinnar (íslenska útgáfan veitir aðeins yfirlit yfir helstu þætti uppgjörsins, horfur, fjárfestafund og fjárhagsdagatal).

1 Rekstrarniðurstaða aðlöguð fyrir afskrift á óefnislegum eignum sem tengjast yfirtökum (PPA) og fyrir kostnaði tengdum yfirtökum. Á þriðja og fjórða ársfjórðungi 2022 og öðrum ársfjórðungi 2023 er rekstrarniðurstaða jafnframt leiðrétt fyrir kostnaði vegna endurskipulagningar. 

Úr nýjasta uppgjöri

2F 2023 lykiltölur

Mótteknar pantanir námu 407 milljónum evra, betri markaðshorfur

422,4m

Tekjur í evrum

33,8m

Aðlagað EBIT í evrum

406,5m

Pantanir í evrum

574,5m

Pantanabók í evrum

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri

Horfur á mörkuðum fara batnandi og mótteknar pantanir hækkuðu í 407 milljónir evra á öðrum ársfjórðungi, miðað við 363 milljónir evra á fyrsta ársfjórðungi. Við sjáum aukningu í sölu og pípan heldur áfram að styrkjast. Skortur á vinnuafli og launaskrið ýta enn frekar undir fjárfestingar viðskiptavina okkar í aukinni sjálfvirkni, róbótatækni og stafrænum lausnum, og Marel er í lykilstöðu til að leiða framþróun innan geirans í samstarfi við viðskiptavini okkar. Við teljum að pantanir verði sterkar á seinni árshelmingi, eftir sem áður er erfitt að tímasetja nákvæmlega hvenær pípan þróast í fullfjármagnaðar pantanir.

Tekjur voru 422 milljónir evra á fjórðungnum og lækkuðu milli fjórðunga vegna lægri pantana af stærri verkefnum síðustu fjórðunga. Stöðugar þjónustutekjur héldu áfram að vaxa og voru um 200 milljónir evra á fjórðungnum, og 767 milljónir evra þegar litið er til síðustu tólf mánaða (e. trailing twelve months). Að baki þessum árangri stendur okkar öfluga teymi og samstarf við viðskiptavini og birgja, sem og innviðafjárfestingar sem hafa á sama tíma haft í för með sér einskiptiskostnað og fjármagn til fjárfestingar á síðustu fjórðungum. Aukin spurn er eftir fyrirbyggjandi þjónustu (e. proactive and predictive service) sem tryggir hámarks afköst, stöðugt flæði og framleiðni í matvælaframleiðslu. Yfirgripsmiklar fjárfestingar okkar til að styðja við sölu varahluta og stafrænnar þjónustu gera okkur vel í stakk búin til frekari vaxtar og aukinnar framlegðar frá rekstri. 

Rekstur annars ársfjórðungs skilaði 8% EBIT-framlegð sem skýrist að mestu af lægri tekjum frá stærri verkefnum, en eins og fram hefur komið í fyrri yfirlýsingum voru væntingar um auknar sveiflur í afkomu á milli ársfjórðunga á árinu 2023. Á fjórðungnum tókum við ákveðin skref til að lækka kostnað fyrir hvert tekjusvið, en gætum jafnframt jafnvægis til að tryggja markaðsstöðu Marel og vera reiðubúin til að skala upp starfsemi þegar eftirspurn tekur við sér á lægri kostnaðargrunni.

Við búumst við svipuðum tekjum á þriðja ársfjórðungi og á öðrum fjórðungi, þar sem pantanir komu inn í pantanabók seint á öðrum ársfjórðungi og nokkur verkefni færðust aftar í fjárhagsárið. Við teljum að frá og með fjórða ársfjórðungi munum við sjá hækkandi tekjur og arðsemi. Áætlanir félagins gera nú ráð fyrir 12-14% EBIT-framlegð á fjórða ársfjórðungi 2023, samanborið við fjárhagsmarkmið um 14-16%.

Stefna okkar og aðgerðir miða að því að ná fram heilbrigðum vexti samhliða hagræðingu í rekstri sem muni skila stöðugri 14-16% EBIT-framlegð eftir því sem fjórðungum á fjárhagsárinu 2024 vindur fram. Horfur til langs tíma í okkar geira eru áfram góðar og við horfum til áframhaldandi innri og ytri vaxtar til þess að ná fjárhagsmarkmiðum okkar.

Við væntum að sjóðstreymi frá rekstri og frjálst sjóðstreymi eftir fjárfestingar muni styrkjast á komandi ársfjórðungum samhliða hærri pöntunum og innborgunum frá viðskiptavinum. Að sama skapi mun lægri birgðastaða samhliða betra jafnvægi í aðfangakeðjum og umfangsminni innviðafjárfestingum á næstu tveimur fjórðungum skila okkur sterkari fjárhagsskipan í samræmi við markmið.

Í júlí tryggðum við nýja 150 milljón evra fjármögnun sem og 2 ára framlengingu til ársins 2027 á 700 milljón evra lánalínu sem tengd er sjálfbærnimarkmiðum félagsins, sem sýnir það traust sem viðskiptabankar félagsins hafa á viðskiptamódeli Marel, breiðum tekjugrunni og metnaðarfullum vaxtarmarkmiðum.

Síðustu þrjú ár hafa verið ár mikilla umbreytinga í virðiskeðjunni og ég er stoltur af teyminu í Marel, viðskiptavinum okkar og birgjum fyrir metnað og atorku á tímum fjölmargra nýrra áskorana og tækifæra. Saman stefnum við ótrauð áfram að ábyrgum vexti sem styður við stöðugan rekstrarhagnað og færir okkur nær vaxtarmarkmiðum ársins 2026 þar sem 50% tekna komi frá þjónustu og hugbúnaði."

Marel framlengir gjalddaga á eldra láni og semur um nýtt 150 milljón evra lán, áhrif á nettó skuldir og skuldahlutfall metin óveruleg

Nýtt 150 milljón evra lán, samhliða framlengingu á eldra láni, skapar svigrúm til að greiða upp lán á gjalddaga sem fram undan eru, þ.á.m. Schuldschein bréf, sem veitir félaginu aukinn rekstrarlegan sveigjanleika og styður við langtímamarkmið félagsins í núverandi markaðsumhverfi.

Til viðbótar hefur Marel gengið frá samningi um framlengingu á 700 milljón evra lánalínu sem tengd er sjálfbærnimarkmiðum félagsins. Lánasamningurinn var upphaflega til fimm ára með lokagjalddaga 2025, með möguleika á allt að tveggja ára framlengingu. Þessi heimild hefur nú verið nýtt og lánalínan framlengd til tveggja ára, með lokagjalddaga í febrúar 2027.

Hið nýja 150 milljón evra lán er sambankalán veitt af leiðandi alþjóðlegum bönkum sem hafa fylgt Marel um langt skeið, þ.e. ABN AMRO, BNP Paribas, Danske Bank, HSBC, ING, og Rabobank, og ber sömu vaxtakjör og gjalddaga og 300 milljón dollara lán sem tilkynnt var um í nóvember 2022. Lánið er á gjalddaga í nóvember 2025 með vilyrði um allt að tveggja ára framlengingu, háðu samþykki lánveitenda.

Horfur

Tekjuvöxtur félagsins er háður hagsveiflum og þeim tækifærum sem eru í boði hverju sinni og því má gera ráð fyrir að hann verði ekki línulegur. Reikna má með breytilegri afkomu á milli ársfjórðunga vegna efnahagsþróunar, sveiflna í pöntunum og tímasetningu stærri verkefna.

Markaðsaðstæður eru áfram krefjandi sem veldur aukinni óvissu. Reikna má með bata í ytra umhverfi á komandi ársfjórðungum, samhliða hagræðingaraðgerðum og minni truflunum á aðfangakeðjunni sem muni leiða til batnandi afkomu í átt að fjárhagslegum markmiðum félagsins. Skortur á vinnuafli, há verðbólga og aukinn aðfangakostnaður viðskiptavina, samhliða aukinni áherslu á sjálfvirkni, róbótatækni og stafrænar lausnir sem tryggja örugg matvæli sem unnin eru á sjálfbæran hátt, munu halda áfram að styðja við vaxtarhorfur félagsins til lengri tíma litið.

Marel stefnir að 14-16% EBIT framlegð, ~38-40% framlegð (e. gross profit), og 24% rekstrarkostnaði sem samanstendur af ~18% sölu-, markaðs- og stjórnunarkostnaði og ~6% þróunarkostnaði.

Áætlanir félagsins benda nú til 12-14% EBIT-framlegðar á fjórða ársfjórðungi þessa árs, samanborið við markmið um 14-16%. Áhersla er lögð á góðan vöxt á lægri kostnaðargrunni sem skili stöðugri 14-16% EBIT-framlegð eftir því sem fjórðungum á fjárhagsárinu 2024 vindur fram. 

Marel stefnir að 12% meðalvexti árlega yfir tímabilið 2017-2026 sem byggir á öflugri markaðssókn og nýsköpun, samstarfi við lykilaðila og yfirtökum á fyrirtækjum.

  • Gera má ráð fyrir að áframhaldandi traustur rekstur og sterkt sjóðstreymi geti stutt við 5-7% ytri meðalvöxt á ári.
  • Marel gerir ráð fyrir að almennur markaðsvöxtur nemi 4-6% til lengri tíma. Með sterkri markaðssókn og nýsköpun stefnir Marel að innri vexti umfram almennan markaðsvöxt. Á undanförnum fimm árum hefur vöxtur markaða verið undir almennum langtíma markaðsvexti. Gert er ráð fyrir að vöxtur á fimm ára tímabili (2021-2026) verði 6-8% í ljósi uppsafnaðrar fjárfestingarþarfar og hröðun eftirspurnar.
  • Marel gerir ráð fyrir að stöðugar tekjur frá þjónustu og hugbúnaði muni nema um 50% af heildartekjum félagsins í árslok 2026.

Marel gerir ráð fyrir að hagnaður á hlut vaxi hraðar en tekjur.

Gert er ráð fyrir að fjárfestingar í rekstrarfjármunum, að frátöldum nýsköpunarverkefnum, muni aukast í að meðaltali 4-5% af tekjum á tímabilinu 2021-2026. Að undangengnu tímabili mikilla fjárfestinga er reiknað með lægri fjárfestingaþörf á síðari hluta þessa árs, eða sem samsvarar 2-3% af tekjum.

Afkomufundur með markaðsaðilum – beint streymi

Fimmtudaginn 27. júlí 2023 kl. 8:30 verður haldinn afkomufundur í beinu streymi fyrir fjárfesta og markaðsaðila. Þar munu stjórnendur kynna afkomu félagsins og helstu atriði úr rekstri á öðrum ársfjórðungi og svara spurningum.

Athugið að fundurinn verður eingöngu rafrænn.

Skráning á rafrænan fund

 

Fundinum verður streymt beint á Zoom og upptaka af fundinum verður aðgengileg á marel.com/ir eftir fundinn.

Fjárhagsdagatal

  • 3F 2023 – 23. október 2023
  • 4F 2023 – 7. febrúar 2023
  • Aðalfundur – 20. mars 2023

Hafa samband

Nánari upplýsingar veita Fjárfestatengsl Marel í gegnum netfangið IR@marel.com og í síma 563 8001.

Tinna Molphy

Tinna Molphy

Marino Thor Jakobsson

Marino Thor Jakobsson

Ellert Gudjonsson

Ellert Gudjonsson


Get in touch

Our dedicated team is here to help and answer any questions you may have. Please complete the form, and we’ll get back to you as soon as possible. We look forward to hearing from you.

Login to get full access

Enter password to continue

Wrong password