Helstu niðurstöður Aðalfundar Marel 2017

Placeholder Image

Aðalfundur Marel var haldinn í höfuðstöðvum félagsins í Garðabæ 2. mars 2017. Allar tillögur sem lágu fyrir fundinum voru samþykktar.

Ávarp stjórnarformanns

Ásthildur Margrét Otharsdóttir, stjórnarformaður Marel hóf fundinn á því að ávarpa salinn. “ 2016 var gott ár fyrir Marel. Ár stefnumarkandi vaxtar og frekari styrkingar á undirstöðum í rekstri Marel. Á tímum sviptinga á alþjóðamörkuðum reyndust hvatar þeirra markaða sem Marel stólar á traustir. Sú gríðarlega áskorun sem fylgir því að fæða jarðarbúa framtíðarinnar mun halda áfram að veita Marel verðugar áskoranir  með áframhaldandi áherslu á sjálfbæra virðisaukningu.”

Stjórnarformaðurinn talaði fyrir þeirri tillögu stjórnar að greiða arð fyrir árið 2016 sem nemur 20% af  hagnaði ársins. “Stjórn Marel er ánægð með að leggja til heildararðgreiðslu til hluthafa sem nemur 15,3 milljónum evra. Þetta er til samræmis við arðgreiðslustefnu félagsins,“ sagði hún. Að auki hefur stjórn Marel veitt stjórnendum félagsins heimild til að kaupa eigin bréf fyrir allt að 15 milljónir evra á árinu 2017  sem nýta má til greiðslu í hugsanlegum yfirtökum í framtíðinni.

Ásthildur minntist á þær áskoranir sem standa frammi fyrir Marel, neytendum og fyrirtækjum heimsins í dag. “Mikilvægar framfarir áttu sér stað á árinu varðandi frekari þróun og framkvæmd á formlegri nálgun á samfélagslegri ábyrgð fyrirtækisins. Leiðbeinandi viðmið fyrirtækisins varðandi samfélagsábyrgð var kynnt fyrir öllum starfsmönnum Marel, ásamt því að Marel gerðist þátttakandi í Global Compact sáttmála Sameinuðu Þjóðanna.” sagði Ásthildur.

Ávarp forstjóra

“2016 var frábært ár fyrir Marel. Marel er í hringiðu þeirra vinda sem blása og móta efnahagslega framvindu í heiminum. Sýn okkar og stefna er skýr og við erum í góðri stöðu til að umbreyta matvælavinnslu á heimsvísu,” sagði Árni Oddur Þórðarson forstjóri Marel í erindi sínu á aðalfundi Marel.

Árni Oddur gerði vaxtarsögu Marel að umtalsefni sínu. Sögu sem einkennist af stefnumarkandi yfirtökum og innri vexti. Hann fór með gesti aðalfundarins  í ferðalag aftur til ársins 2005 þegar tekjur Marel námu 129 milljónum evra, EBIT var 10 milljónir evra og áhersla félagsins var að mestu á fiskiðnaðinn. Árið 2006 var vaxtarstefna Marel lögð fram á aðalfundi og kvað á um að Marel yrði leiðandi á heimsvísu í að þróa, selja og þjónusta heildarlausnir til viðskiptavina í kjöti, kjúklingi og fiski.

Árni Oddur fór í gegnum yfirtökur síðustu ára og endaði á yfirtökunni á MPS Meat processing systems sem lokið var í janúar 2016. „Marel keypti MPS án þess að fara í hlutafjárútgáfu og hélt sér innan þeirrar fjárhagsskipunar sem stefnt er að. Skuldahlutfallið var x2,9 þegar yfirtökunni var lokið en góð rekstrarniðurstaða og sterkt sjóðstreymi frá rekstri hefur skilað því niður í x2,25,“ sagði Árni.  Frá árinu 2005 hefur Marel vaxið að meðaltali 20% á ári, 1/3 hluti þessa vaxtar hefur verið innri vöxtur og 2/3 ytri vöxtur. Þetta hefur skilað Marel þangað sem félagið er í dag; Leiðtogi á heimsvísu í þróun, framleiðslu og þjónustu  á heildarlausnum  til vinnslu á fiski, kjöti og kjúklingi með  tekjur nálægt einum milljarði evra og EBIT sem nemur 143 milljónum.

Árni Oddur fór því næst yfir helstu atriði í rekstri síðasta árs.

„Pro forma tekjur ársins 2016 námu 983 milljónum evra samanborið við 819 milljónir árið 2015. Rekstrarhagnaður (EBIT) hefur aukist jafnt og þétt á milli ára og var 143,5 milljónir evra eða 14.6% af tekjum árið 2016.  Hagnaður á hlut jókst um 34% á milli ára,“ sagði Árni.  

Fyrir árið í heild var pantanastaða fyrir staðlaða vöru og varahluti sterk í öllum iðnuðum og á fjórða ársfjórðungi tók pantanastaða stærri verkefna (e. greenfields) við sér eftir laka byrjun á árinu.  Þetta skilaði sér í sterkri pantanabók í árslok 2016. Stóru verkefnin sem komu inn undir lok ársins fara nú í þróunarferli og byrja að skila inn tekjum á öðrum ársfjórðungi 2017.

Árni talaði um tekjumódel Marel sem er samansett af þremur tekjustraumum. Stærri verkefni, stöðluð vara og þjónustutekjur. Þjónustutekjur Marel voru á síðasta ári 36% af tekjum samanborið við 7% árið 2005. „Stærri verkefnin eru uppspretta framtíðartekna þar sem þau skapa þörf fyrir viðbætur og þjónustu til lengri tíma litið,“ sagði Árni.

Að lokum kynnti Árni framtíðarstefnu og -horfur Marel.  Marel stefnir á 12% árlegan meðalvöxt  næstu 10 árin. Marel gerir ráð fyrir að markaðsvöxtur nemi 4-6% á næstu árum. Með sterkri markaðsstöðu og nýsköpun ætlar Marel að vaxa hraðar en  markaðurinn með innri vexti. Sterk fjárhagsstaða og reynslumikið teymi gerir Marel vel í stakk búið til að ná fram frekari vexti með stefnumarkandi yfirtökum. Með því að viðhalda góðri rekstrarniðurstöðu og sterku sjóðstreymi frá rekstri er hægt að ná fram 5-7%  ytri meðalvexti á ári. Vert er að taka fram að hvorki innri né ytri vöxtur verður línulegur heldur mun vöxturinn velta á þeim tækifærum sem í boði eru hverju sinni, hagsveiflum og almennri efnahagsþróun.  

Ársreikningur samþykktur

Fundurinn samþykkti ársreikning og skýrslu stjórnar og forstjóra fyrir árið 2016. Allar tillögur sem lágu fyrir fundinum voru samþykktar.

Stjórn Marel endurkjörin

Stjórn Marel var endurkjörin og hana skipa: Ástvaldur Jóhannsson, Ólafur Guðmundsson , Arnar Þór Másson, Ásthildur Margrét Otharsdottir, Ann Elizabeth Savage, Helgi Magnússon og Margrét Jónsdottir.

Ný stjórn Marel hefur komið saman og skipt með sér verkum. Ásthildur Margrét Otharsdóttir verður áfram stjórnarformaður og Arnar Þór Másson er varaformaður stjórnarinnar

Frekari upplýsingar


Frekari upplýsingar um aðalfundinn og niðurstöður hans eru aðgengilegar á Marel.com og á upplýsingasíðu aðalfundar 2017 http://www.marel.com/agmMyndbandsupptaka af fundinum verður aðgengileg fljótlega á upplýsingasíðu aðalfundar.

CEO Adress AGM 2017


Get in touch

Our dedicated team is here to help and answer any questions you may have. Please complete the form, and we’ll get back to you as soon as possible. We look forward to hearing from you.

Login to get full access

Enter password to continue

Wrong password