Marel: Tekjuvöxtur á milli ára 20,4%, skýrt markmið um 14-16% EBIT framlegð á fjórða ársfjórðungi 2023

Abstract 5.jpg

Marel kynnir afkomu fyrsta ársfjórðungs 2023

  • Tekjuvöxtur var 20,4% á milli ára, þar af 13,0% vegna ytri vaxtar og EBIT framlegð var 9,0% samanborið við 8,4% á fyrsta ársfjórðungi í fyrra.
  • Mótteknar pantanir fyrir stærri verkefni voru lágar á fyrsta ársfjórðungi sem skýrist af hækkandi vöxtum og aukins kostnaðar viðskiptavina. Pípan af nýjum verkefnum er sterk sem gefur góð fyrirheit um pantanir fyrir næstu ársfjórðunga.
  • Gera má ráð fyrir breytilegri afkomu á milli ársfjórðunga á árinu vegna umróts á mörkuðum.
  • Marel stendur við markmið um að ná 14-16% EBIT framlegð frá og með fjórða ársfjórðungi 2023 og verður áhersla lögð á virka verðstýringu, aukinn afgreiðsluhraða og enn frekari hagkvæmni í rekstri.
  • Horfur til lengri tíma eru óbreyttar. Fyrirséð er að há verðbólga og skortur á vinnuafli komi til með að auka spurn eftir hátækni- og hugbúnaðarlausnum í matvælaiðnaðinum þar sem aukin áhersla er á sjálfvirkni, róbótatækni og stafrænar lausnir sem styðja við sjálfbæra vinnslu matvæla.

Helstu atriði í afkomu fyrsta ársfjórðungs 2023:

  • Pantanir námu 362,6 milljónum evra (4F22: 413,4m, 1F22: 421,7m).
  • Pantanabókin stóð í 590,4 milljónum evra (4F22: 675,2m, 1F22: 619,1m).
  • Tekjur námu 447,4 milljónum evra (4F22: 489,2m, 1F22: 371,6m).
  • Hlutfall pantana á móti tekjum (e. Book-to-bill) var 0,81 og hlutfall pantanabókar samsvarar 33,1% af tekjum síðustu tólf mánaða.
  • EBIT1 nam 40,2 milljónum evra (4F22: 60,9m, 1F22: 31,3m), sem var 9,0% af tekjum (4F22: 12,4%, 1F22: 8,4%).
  • Hagnaður nam 9,1 milljónum evra (4F22: 18,5m, 1F22: 21,7m).
  • Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 34,3 milljónum evra (4F22: 44,3m, 1F22: 32,7m).
  • Frjálst sjóðstreymi var neikvætt sem nam 0,3 milljónum evra (4F22: 10,0m, 1F22: 14,6m).
  • Skuldahlutfall (nettó skuldir/EBITDA) var 3,5x í lok mars (4F22: 3,6x, 1F22: 1,2x) eftir kaupin á Wenger á öðrum ársfjórðungi 2022. Áhersla lögð á að ná aftur markmiði félagsins um fjármagnsskipan sem er að halda skuldahlutfalli milli 2-3x.

Ítarlegri umfjöllun um rekstur og afkomu félagsins má finna í enskri útgáfu fréttatilkynningarinnar (íslenska útgáfan veitir aðeins yfirlit yfir helstu þætti uppgjörsins, horfur, fjárfestafund og fjárhagsdagatal).

1 Rekstrarniðurstaða aðlöguð fyrir afskrift á óefnislegum eignum sem tengjast yfirtökum (PPA) og fyrir kostnaði tengdum yfirtökum. Á þriðja og fjórða ársfjórðungi 2022 er rekstrarniðurstaða jafnframt leiðrétt fyrir kostnaði vegna endurskipulagningar tengdri fækkunar starfsfólks um 5%.

Úr nýjasta uppgjöri

1F 2023 lykiltölur

Tekjuvöxtur á milli ára 20,4%, skýrt markmið um 14-16% EBIT framlegð á fjórða ársfjórðungi 2023

447,4m

Tekjur í evrum

40,2m

Aðlagað EBIT í evrum

362,6m

Pantanir í evrum

590,4m

Pantanabók í evrum

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri

Tekjur fyrsta ársfjórðungs námu alls 447 milljónum evra, sem er 20% tekjuvöxtur á milli ára, en voru þó lægri samanborið við metfjórðung í lok síðasta árs. Stöðugar tekjur frá þjónustu fara stighækkandi og voru 43% af heildartekjum fjórðungsins sem undirstrikar sterka stöðu Marel sem lykilþjónustuaðila í matvælaiðnaði.

Það er ánægjulegt að ný tekjustoð félagsins á sviði plöntupróteina og matvæla fyrir gæludýr, sem varð til með kaupunum á Wenger, skilar nú um 12% af tekjum félagsins. Með kaupunum á Wenger hefur náðst fram betri tekjudreifing eftir landsvæðum og aðgangur að breiðari hópi viðskiptavina. Við sjáum nú þegar aukin tækifæri til vaxtar í gegnum alþjóðlegt sölu- og þjónustunet félagsins. 

Í fjórðungnum hægði á pöntunum fyrir stærri verkefni sem skýrist af óvissu í efnahagsmálum, hækkandi vaxtastigi og kostnaði viðskiptavina. Heildarpantanir námu 363 milljónum evra. Í þessum aðstæðum tekur fjármögnun verkefna mislangan tíma sem hefur áhrif á það hvenær þau verða að staðfestum pöntunum sem getur leitt til sveiflna í afkomu á milli ársfjórðunga þegar líður á árið. Pípan af nýjum verkefnum er áfram sterk og gert er ráð fyrir að markaðsaðstæður fari batnandi á komandi ársfjórðungum. Undirliggjandi spurn eftir sjálfvirkni, róbótatækni og stafrænum lausnum er enn mikil hjá viðskiptavinum okkar sem standa frammi fyrir áframhaldandi skorti á vinnuafli og hækkandi vaxta- og aðfangakostnaði.

Rekstur fyrsta ársfjórðungs skilaði 9% EBIT-framlegð. Framlegð (e. Gross Profit) helst stöðug í 36%, þrátt fyrir lækkun tekna á milli fjórðunga. Við stefnum að 38-40% framlegð í árslok 2023. Lykilstoðir til hækkunar á framlegð byggjast á betri samsetningu tekjustrauma, verðhækkunum á stærri verkefnum sem koma inn með seinkun á síðari helmingi ársins auk þess sem sjálfvirknivæðing og stafræn fjárfesting síðustu missera mun skila auknu hagræði. Aðfangakeðjur og vöruflutningar eru almennt að komast í jafnvægi sem mun leiða til lægri kostnaðar, aukins hraða og framleiðni.

Við höfum haldið áfram að kynna nýjar framsæknar lausnir á helstu vörusýningum um heim allan og viðhaldið markmiði okkar um 6% þróunarkostnað sem hlutfall af tekjum. Á sama tíma var sölu- og stjórnunarkostnaður 21% af tekjum á fyrsta ársfjórðungi, samanborið við markmið okkar um 18% í lok árs.

Á sama tíma og við munum viðhalda öflugri starfsemi í framlínu, eru nú ákveðin skref stigin til að straumlínulaga kostnað við stjórnun og bakvinnslu í sölu og þjónustu. Bæði framlegð og sölu- og stjórnunarkostnaður litast af einskiptiskostnaði í ársfjórðungnum sem ekki er leiðrétt fyrir og mun fara lækkandi.

Undirliggjandi sjóðstreymi frá rekstri fer batnandi, en litaðist af lægri innágreiðslum frá viðskiptavinum í ljósi hlutfalls pantana á móti tekjum (e. Book-to-bill) og áframhaldandi fjárfestingum í innviðum. Skuldahlutfall var 3,5x í lok fjórðungsins og markmið er um að skuldahlutfall verði milli 2-3x í upphafi næsta árs, þar sem vega þyngst bætt rekstrarafkoma og lækkun birgða eftir því sem aðstæður í aðfangakeðjum fara batnandi.

Við einsetjum okkur að ná fjárhagsmarkmiðum okkar fyrir árslok 2023. Jafnframt staðfestum við óbreytt vaxtarmarkmið fyrir lok árs 2026, þar sem áfram verður lögð áhersla á fjárfestingu í aukinni sjálfvirkni og stafrænni þróun sem styðja við markmið félagsins um að þjónustu- og hugbúnaðartekjur verði 50% af heildartekjum. Innleiðing á nýju skipulagi félagsins hefur gengið vel og tók gildi í apríl. Ég er þess fullviss að það muni skerpa viðskiptavinafókus, auka snerpu og skalanleika fyrir vaxtarfyrirtæki eins og Marel, og þar með skila meiri arðsemi."

Marel lýkur kaupum á E+V Technology

Þann 4. apríl síðastliðinn tilkynnti Marel um kaupsamning á öllum rekstrareiningum tengdum E+V Technology, alþjóðlegum framleiðanda á eftirlitskerfum fyrir kjöt- og alifuglaiðnaðinn þar sem notast er við háþróaða sjóntækni. Lausnir fyrirtækisins eru notaðar við flokkun á nauta-, svína, lamba- og alifuglakjöti og falla vel að núverandi vöruframboði Marel. E+V Technology var stofnað árið 1992 og er með höfuðstöðvar í Oranienburg í Þýskalandi. Starfsmenn eru 19 talsins og árstekjur nema um 5 milljónum evra.

Samstarfssamningur undirritaður við ADM um opnun rannsóknarmiðstöðvar

Þann 7. mars síðastliðinn tilkynnti Marel um undirritun samstarfssamnings við ADM, eitt stærsta fyrirtæki í heimi í matvælaframleiðslu til mann- og dýraeldis, um opnun háþróaðrar rannsóknarmiðstöðvar til nýsköpunar á sviði plöntupróteina þar sem áhersla verður lögð á bragð og áferð matvæla. Rannsóknarmiðstöðin mun gera framleiðendum kleift að efla samstarf við aðra framleiðendur og sérfræðinga á þessu sviði, allt frá hugmynd, framleiðslu og til markaðssetningar á nýjum vörum. Áætlað er að miðstöðin opni á síðari hluta árs 2024.

Horfur

Tekjuvöxtur félagsins er háður hagsveiflum og þeim tækifærum sem eru í boði hverju sinni og því má gera ráð fyrir að hann verði ekki línulegur. Reikna má með breytilegri afkomu á milli ársfjórðunga vegna efnahagsþróunar, sveiflna í pöntunum og tímasetningu stærri verkefna.

Marel stefnir að 14-16% EBIT framlegð fyrir lok árs 2023 í stað 16% áður, í ljósi umróts í alþjóðlegu efnahagsumhverfi. Marel stefnir jafnframt að um 38-40% framlegð (e. gross profit), 18% sölu-, markaðs- og stjórnunarkostnaði og 6% þróunarkostnaði í árslok 2023.

Markaðsaðstæður eru áfram krefjandi sem veldur aukinni óvissu. Reikna má með bata í ytra umhverfi á komandi ársfjórðungum, samhliða hagræðingaraðgerðum og minni truflunum á aðfangakeðjunni sem muni leiða til batnandi afkomu á síðari helming ársins í átt að fjárhagslegum markmiðum félagsins fyrir árslok 2023.

Skortur á vinnuafli, há verðbólga og aukinn aðfangakostnaður viðskiptavina, samhliða aukinni áherslu á sjálfvirkni, róbótatækni og stafrænar lausnir sem tryggja örugg matvæli sem unnin eru á sjálfbæran hátt, munu halda áfram að styðja við vaxtarhorfur félagsins til lengri tíma litið.

Marel stefnir að 12% meðalvexti árlega yfir tímabilið 2017-2026 sem byggir á öflugri markaðssókn og nýsköpun, samstarfi við lykilaðila og yfirtökum á fyrirtækjum.

  • Gera má ráð fyrir að áframhaldandi traustur rekstur og sterkt sjóðstreymi geti stutt við 5-7% ytri meðalvöxt á ári.
  • Marel gerir ráð fyrir að almennur markaðsvöxtur nemi 4-6% til lengri tíma. Með sterkri markaðssókn og nýsköpun stefnir Marel að innri vexti umfram almennan markaðsvöxt.
  • Á undanförnum fimm árum hefur vöxtur markaða verið undir almennum langtíma markaðsvexti. Gert er ráð fyrir að vöxtur á fimm ára tímabili (2021-2026) verði 6-8% í ljósi uppsafnaðrar fjárfestingarþarfar og hröðun eftirspurnar.
  • Marel gerir ráð fyrir að stöðugar tekjur frá þjónustu og hugbúnaði muni nema um 50% af heildartekjum félagsins í árslok 2026.

Marel gerir ráð fyrir að hagnaður á hlut vaxi hraðar en tekjur.

Gert er ráð fyrir að fjárfestingar í rekstrarfjármunum, að frátöldum nýsköpunarverkefnum, muni aukast í að meðaltali 4-5% af tekjum á tímabilinu 2021-2026, en fari svo aftur í fyrra horf.

Afkomufundur með markaðsaðilum

Fimmtudaginn 4. maí 2023 kl. 8:30 verður haldinn afkomufundur fyrir fjárfesta og markaðsaðila en þar munu stjórnendur kynna afkomu félagsins og helstu atriði úr rekstri á fyrsta ársfjórðungi.

Afkomufundurinn verður haldinn í höfuðstöðvum félagins í Austurhrauni 9, Garðabæ. Boðið verður upp á morgunverð frá kl. 8:00.

Skráning á vefvarp

 

Fundinum verður streymt beint á Zoom og upptaka af fundinum verður aðgengileg á marel.com/ir eftir fundinn.

Fjárhagsdagatal

  • 2F 2023 – 26. júlí 2023
  • 3F 2023 – 23. október 2023
  • 4F 2023 – 7. febrúar 2023

Hafa samband

Nánari upplýsingar veita Fjárfestatengsl Marel í gegnum netfangið IR@marel.com og í síma 563 8001.

Tinna Molphy

Tinna Molphy

Marino Thor Jakobsson

Marino Thor Jakobsson

Ellert Gudjonsson

Ellert Gudjonsson


Get in touch

Our dedicated team is here to help and answer any questions you may have. Please complete the form, and we’ll get back to you as soon as possible. We look forward to hearing from you.

Login to get full access

Enter password to continue

Wrong password